Menning

Við setjum markið hátt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Það er hægt að hafa nóg að gera hér í skólanum og ég er spenntur fyrir þessu nýja starfi. Svo vil ég ekki hætta alveg að semja músík,“ segir Tryggvi.
"Það er hægt að hafa nóg að gera hér í skólanum og ég er spenntur fyrir þessu nýja starfi. Svo vil ég ekki hætta alveg að semja músík,“ segir Tryggvi. Fréttablaðið/Daníel
„Skólinn verður settur 25. ágúst en ég tók við starfinu 1. ágúst.

Auðvitað þekki ég deildina býsna vel, er búinn að kenna þar frá byrjun en samt eru ýmsir hlutir sem ég hef ekki gert áður í sambandi við skriffinnsku og stjórnun. Sérstaklega í skólabyrjun. Ég er bara að læra,“ segir Tryggvi M. Baldvinsson, hinn nýi forseti tónlistardeildar Listaháskólans.

Tryggvi hefur hingað til kennt fjölda greina við skólann en kveðst verða að fækka þeim verulega. Meðal verkefna hjá honum núna er að fá kennara til að fylla upp í þau göt.

„Ég ætla samt að halda áfram að kenna tónfræðina, vera með eitt námskeið, þá fæ ég að kenna öllum nemendum skólans einhvern tíma,“ segir hann.

„Mér finnst svo gaman að kenna að mig langar ekki að sleppa því alveg en ég á eftir að finna hvernig þetta mótast. Við setjum markið hátt og viljum styrkja tónlistardeildina. Það er stóra markmiðið.“

Aðsókn nemenda í deildina mætti vera meiri að sögn Tryggva. „Við erum með mörg tónskáld sem er auðvitað gaman en við þurfum að efla hljóðfæra- og söngnámið. Fólk sækir meira út fyrir landsteinana í það.“

Tryggvi kveðst vilja leggja áherslu á að mennta kennara bæði í hljóðfæraleik og söng. Þar hafi verið margra ára gat.

„Það voru hljóðfærakennaradeildir í Tónlistarskólanum í Reykjavík en þær voru lagðar niður með tilkomu Listaháskólans. Nú erum við nýbúin að opna þær aftur og þurfum að einbeita okkur að þeim, því til að fá nemendur þurfum við að búa til kennara líka,“ segir hann.

Skyldi hann sjá fram á langa vinnudaga? „Já, það er hægt að hafa nóg að gera hér í skólanum og ég er spenntur fyrir þessu nýja starfi. Svo vil ég ekki hætta alveg að semja músík og þarf líklega að fara að nota kvöldin og annan frítíma í það.“

 

Tryggvi lauk diplómaprófi í tónsmíðum og tónfræði við Konservatorium der Stadt Wien árið 1992. Áður hafði hann tekið lokapróf frá tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Hann hefur verið virkur sem tónskáld og hljómsveitarstjóri. Tónverk hans hafa verið gefin út á fjölda hljómdiska, bæði á Íslandi og erlendis.



Tryggvi hefur verið kennari tónfræðagreina við Tónlistarskólann í Reykjavík frá 1992 og deildarstjóri við sama skóla frá 1998. Einnig hefur hann verið aðjunkt við tónlistardeild Listaháskólans frá upphafi, 2002.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×