Menning

Nóg er eftir af engu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Ekkert er að einhverju leyti það óskiljanlega, óútreiknanlega og óútskýranlega, jafnframt því að hafa engan augljósan tilgang,“ segja þau Freyja og Arnar.
„Ekkert er að einhverju leyti það óskiljanlega, óútreiknanlega og óútskýranlega, jafnframt því að hafa engan augljósan tilgang,“ segja þau Freyja og Arnar. Mynd/úr einkasafni
Áhugi á tómarúminu og alheiminum er orðinn að verkefninu Núll í höndum listamannanna Freyju Reynisdóttur og Arnars Ómarssonar sem starfa í Árósum í Danmörku.

Það verkefni snýst um að gera ekkert úr engu og Freyja og Arnar hafa þegar lokið fyrsta hluta þess en í þessari viku er þriggja daga þagnargjörningur – og eins og Arnar orðar það: „Nóg er eftir af „engu“.“

„Fyrsti hlutinn af verkefninu var þriggja daga listasmiðja sem við héldum í samstarfi við Háskólann í Árósum; mannfræðideildin bauð tuttugu virtum mannfræðingum víðsvegar að úr heiminum til þátttöku,“ lýsir Freyja.

„Við unnum með þeim við að brjóta niður fastmótaðar skilgreiningar á dagsdaglegum hlutum sem þeir komu með frá sínum sérsviðum og að heiman.“

Að loknum þagnargjörningnum í þessari viku segir Freyja þau Arnar ætla að vinna saman í þrjár vikur á vinnustofum sínum á Institut for X í Árósum. Þar muni þau framleiða og gera tilraunir á engu í ýmsum útfærslum.

„Svo höldum við aðra smiðju þar sem við fáum til okkar ýmsa sérfræðinga til að skilgreina þá neind sem komin verður, og umbreytum henni þar með í skilgreinda verund. Það verður svo að bókverki sem fer á sýningu ásamt allri neindinni í lok september.“

Spurð hvort eitthvað verði til að sýna svarar Arnar:

„Já. Það er hægt að gera mjög margt úr engu og öfugt. Eðlisfræðingar myndu líklegast ekki fallast á sumar hugmyndir okkar um neindina en listamenn hafa heldur enga skuldbindingu til að falla innan ramma eðlisfræðinnar. Kannski hljómar það einfalt að gera ekkert úr engu en hugmyndin um neindina er mjög krefjandi. Við verðum líklega með alveg helling af engu í lok mánaðar.“

„Það er mjög áhugavert að vinna með þessa hugmynd því hún teygir sig í svo skemmtilegar áttir,“ tekur Freyja undir. „Við byrjuðum Núll með pælingum um geiminn, Þetta óskiljanlega en samt skilgreinda tómarúm sem við vitum svo lítið um.“

„Núll er eiginlega bara einn stór gjörningur og við munum fallast á vald hans þar sem sköpunarkrafturinn og framtakssemin keyra okkur áfram,“ segir Arnar.

„Við höfum bæði unnið að mörgum samstarfsverkefnum og haldið fjölda sýninga en að gera ekkert er alveg nýtt fyrir mér.“

Freyja kveðst hafa fiktað við að gera eitthvað sem svipi til Núlls en það hafi ekki gengið jafn langt.

„Það er því nær ógerlegt að gera ekkert,“ segir hún. „En gífurlega spennandi að vinna með og kljást við.“

Hægt er að fylgjast með verkefninu á whyissomethingratherthannothing.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×