Menning

Æfir tónverk í Hörpu fyrir opnum tjöldum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þetta er ákveðið trikk, svipa á sjálfa mig að læra þetta verk. Ég hefði sennilega aldrei nennt því annars því það er brjálæðislega mikil vinna!“ segir Berglind.
"Þetta er ákveðið trikk, svipa á sjálfa mig að læra þetta verk. Ég hefði sennilega aldrei nennt því annars því það er brjálæðislega mikil vinna!“ segir Berglind. Fréttablaðið/GVA
„Það sem ég ætla að gera er að æfa stórt og mikið flautuverk eftir mann sem heitir Brian Ferneyhough í Hörpuhorninu, sem er á 2. hæð og snýr að Seðlabankanum.

Ég er ekkert byrjuð að æfa en ætla að vera þarna á hverjum degi til 10. október og það er alls ekki ofáætlaður tími,“ segir Berglind M. Tómasdóttir, flautuleikari og tónskáld.

Hún segir um ákveðna tilraun að ræða.

„Annars vegar er ég að skoða hvaða máli það skiptir fyrir mig að æfa mig í almannarými, hvort það hafi áhrif til góðs eða ills og svo ætla ég að skrásetja allar þessar æfingar.“

Hingað til kveðst Berglind bara hafa æft sig heima eins og almennt gerist.

„Þetta er ákveðið trikk, svipa á sjálfa mig að læra þetta verk. Ég hefði sennilega aldrei nennt því annars því það er brjálæðislega mikil vinna! Ég var beðin að vera með stórt opnunarverk á Myrkum músíkdögum sem eru í lok janúar 2015 og þessi gjörningur og einhvers konar niðurstöður hans eru liður í því.“

Ekki kveðst Berglind vita til að svona gjörningur hafi verið gerður áður en telur víst að svo hafi verið.

„Það hefur allt verið gert áður en það er ólíklegt að einhver hafi æft akkúrat þetta verk 20 sinnum í 40 mínútur. En þetta er dálítið í anda dagsins í dag. Mér finnst vera sterkur þráður í listum núna almennt að leggja áherslu á ferlið en ekki bara lokaútgáfuna.“

Berglind vonar að einhverjir nenni að kíkja á hana og fylgjast með æfingunum.

„Í tónlistarnámi er áherslan á tónleika eða stigspróf innbyggð. Alltaf er verið að æfa og stefna að einhverjum áfanga. En hvað með að gera þessar æfingar að aðalatriði? Kannski finnst einhverjum það áhugaverðara en lokaútkoman,“ segir hún.

Hún segir fólki líka velkomið að trufla hana og spjalla við hana um verkið. „Ég hef bara gaman af því að vera trufluð. Það er partur af þessari tilraun.

Æfingar hennar hefjast að jafnaði klukkan 13 og standa í 40 mínútur. Sú fyrsta er í dag.



Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Hún hefur unnið talsvert með vídeólist, leikhús og tónlist í performönsum sínum. Hún hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík, Bang on a Can-maraþoninu í San Francisco, Sumartónleikum í Skálholtskirkju, CMMAS-tölvutónlistarsetrinu í Morelia í Mexíkó, Myrkum músíkdögum, MSPS New Music Festival í Shreveport, Louisiana, REDCAT í Los Angeles og Nordic Music Days, svo fátt eitt sé nefnt.

Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimirs Ashkenazy. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið og lauk nýverið doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×