Menning

Ljóð kvenna lesin og sungin á Bakkanum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Rannveig Anna stofnaði Konubókastofuna á síðasta ári og segir þangað koma bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn. Stofan er hluti hins nýja verkefnis Bókabæirnir austanfjalls.
Rannveig Anna stofnaði Konubókastofuna á síðasta ári og segir þangað koma bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn. Stofan er hluti hins nýja verkefnis Bókabæirnir austanfjalls. Mynd/Úr einkasafni
„Ég er búin að fá flott ljóðskáld,“ segir Rannveig Anna Jónsdóttir, forstöðumaður Konubókastofu, um dagskrá ljóðahátíðar í Rauða húsinu á Eyrarbakka á morgun, sunnudag, klukkan 14.

Hún kynnir til sögunnar Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur, Kristrúnu Guðmundsdóttur, Heiðrúnu Ólafsdóttur og Sigrúnu Haraldsdóttur sem allar lesa upp úr bókum sínum.

„Svo mun Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir halda erindi um skáldkonuna Erlu og Lay Low og Agnes Erna Estherardóttir ætla að flytja ljúfa tónlist við ljóð kvenna.“

Rannveig Anna stofnaði Konubókastofuna á síðasta ári. Hún er bókmenntafræðingur og kveðst alin upp í anda kvenréttinda. Þetta tvennt hafi sameinast í hugmyndinni um konubókastofu.

„Ég sá safn á Englandi 2008 sem er eingöngu með bækur eftir konur. Þegar ég gekk þar út ákvað ég að stofna svona á Íslandi þegar ég kæmi heim.

„Ég sagði mörgum frá fyrirætlan minni og eftir viðtal við mig í Landanum fóru mér að berast bækur eftir konur hvaðanæva af landinu. Hellingur af bókum. Fleiri viðtöl hafa birst og bækurnar streyma til mín stanslaust. Ein kom núna í morgun, afskaplega falleg, hún heitir Ljóðin hennar ömmu og þessi amma hét Laufey Sigríður og var Kristjánsdóttir.

Rannveig Anna segir sveitarfélagið Árborg hafa skaffað Konubókastofunni herbergi í Blátúni á Eyrarbakka. „Nú er plássið orðið of lítið þannig að næsta skref er að finna stærra,“ segir hún. „En Rauða húsið er svo elskulegt að leyfa mér að halda ljóðahátíðina þar.“

Konubókastofan er varðveislu- og fræðslusafn með vefsíðuna konubokastofa.is. Elsta bókin þar er frá 1886, það er handavinnubók eftir þrjá höfunda, þar á meðal Þóru biskups.

„Hver sem er getur komið og fræðst um bækurnar og höfunda þeirra en við lánum þær ekki úr húsi,“ segir Rannveig Anna sem er í lokin spurð hvort hún sé skáld.

„Nei, því miður, það væri dásamlegt. En ég hef heilmikinn áhuga á skáldskap.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×