Menning

„Stundum hugsaði ég: Í hvað ertu kominn, Sigmundur?“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Sigmundur brýtur bókina upp með ýmsu smáefni.
Sigmundur brýtur bókina upp með ýmsu smáefni. vísir/ernir
„Það var leitað til mín úr sóknarnefndinni og ég spurður hvort ég væri tilbúinn að taka þetta verkefni að mér. Þetta var ákveðin áskorun sem ég skoraðist ekki undan. Það er mikið keppnisfólk þarna í söfnuðinum sem hefur hlúð geysilega vel að sögu sóknarinnar,“ segir Sigmundur Ó. Steinarsson rithöfundur. Hann á heiðurinn af bókinni Grafarvogssókn 25 ára sem kom út fyrir stuttu en í henni er sagt frá umfangsmiklu starfi Grafarvogssafnaðar, langstærsta safnaðar landsins.

Það tók Sigmund átta til níu mánuði að vinna bókina en hann hefur skrifað sögubækur um íþróttir, til dæmis 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu, og átti bókin að vera í svipuðum dúr.

Séra Vigfús Þór tekur fyrstu skóflustunguna að Grafarvogskirkju laugardaginn 18. maí árið 1991.
„Þetta er ekki skýrsla eða langlokur. Þetta er bók fyrir fólk um fólk. Þetta er öðruvísi kirkjubók eins og margir hafa sagt,“ segir Sigmundur.

„Þetta var mikill eltingarleikur við myndir og efni. Ég er mikill tarnamaður og vann geysilega mikið sumar vikurnar og safnaði efni og settist svo niður við skriftir. Ég vildi koma þessu þannig frá mér að allir yrðu sáttir,“ bætir hann við. Hann er stoltur af bókinni.

Fyrsta guðsþjónustan í aðalsal Grafarvogskirkju sunnudaginn 5. júní árið 1994.
„Ég er geysilega ánægður með bókina. Hraðinn í vinnslunni var svona mikill því ég sá hana alltaf fyrir mér. Ég er vanur blaðamennsku og ég segi að við blaðamenn séum bestu sagnfræðingarnir enda erum við sagnfræðingar, þótt við séum ekki menntaðir sem slíkir. Stundum hugsaði ég: Í hvað ertu kominn, Sigmundur? Þá bara tvíefldist ég enda ákvað ég að ljúka verkefninu þegar ég tók það að mér. Ég sagði í gríni að ég væri stundum kallaður séra Sigmundur en ég ber einnig gælunafnið Bubbi. Þannig að ég yrði kallaður Bubbi biskup ef ég myndi ljúka þessu verkefni,“ segir Sigmundur og hlær. Hann naut þess að taka viðtöl við safnaðarmeðlimi Grafarvogssóknar.

Hugleikir barnanna í Grafarvogi hafa alltaf vakið mikla athygli og skemmtun á aðventunni í Grafarvogskirkju.
„Ég kynntist söfnuði sem stendur vel saman. Þarna er unnið mjög öflugt starf. Kórarnir hafa verið mjög öflugir og góðir og safnaðarfélagið vinnur alveg ótrúlegt starf í að safna fyrir hinum ýmsu munum. Safnaðarmeðlimir smyrja einnig vel þegar veislur eru og annað og ég sagði einu sinni að þegar góðgætið væri borið fram væri það eiginlega munnsöfnuður,“ segir Sigmundur glaður í bragði.

„Aðalatriðið er að sóknarbörnin séu ánægð með bókina. Þá er ég ánægður. Og ég er ánægður því ég heyrði að þau kynnu vel að meta hana.“

Séra Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur og Vilhjálmur Árni Þráinsson, sem hann fermdi 21. apríl í ár. Vilhjálmur Árni var fyrsta barnið sem var skírt í Grafarvogskirkju eftir að hún var vígð.
Atli Ísaksson kemur verki Leifs Breiðfjörð fyrir í kirkjunni en glerlistaverk Leifs er jafnframt altaristafla kirkjunnar.
Hörður Bragason stjórnar kór sínum í Veróna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×