Menning

Daglegt líf í skissum prestsins

Valgerður Þ. Jónsdóttir skrifar
Örn Bárður tekur virkan þátt í teikniklúbbi á netinu. Hann sendir annað slagið inn valdar myndir úr skissubókinni og vatnslitamyndir, sem hann hefur málað um dagana.
Örn Bárður tekur virkan þátt í teikniklúbbi á netinu. Hann sendir annað slagið inn valdar myndir úr skissubókinni og vatnslitamyndir, sem hann hefur málað um dagana. FRETTABLADID/PJETUR
Sjálfblekungur með svörtu bleki er verkfærið og með honum dregur séra Örn Bárður Jónsson upp lífið eins og það blasir við honum í svarta skissubók. Ekki alltaf og alls staðar, en þó býsna oft. Bókina skilur hann að minnsta kosti sjaldan við sig. Hann dregur hana upp úr skjalatöskunni sinni við ýmis tækifæri, mundar verkfærið hröðum höndum og fangar augnablikið, rétt eins og ljósmyndari.



„Ég skissa upp allt mögulegt, hús, landslag, dýr, blóm og manneskjur í mismunandi athöfnum, aðstæðum og umhverfi, hvar sem er og hvenær sem er, heima og heiman,“ segir Örn Bárður, sem vatnslitar myndirnar og skrifar oftast við þær ýmsa minnispunkta, skýringar eða athugasemdir þegar heim er komið. Hversdagslegir hlutir eins og heftari, heyrnartól og hádegisverður fá líka sitt pláss í bókinni svo fátt eitt sé nefnt. Ekkert er of ómerkilegt fyrir skissubókina að því er best verður séð.



„Ég byrjaði að skissa svipmyndir úr daglega lífinu fyrir um tveimur árum þegar ég skráði mig á urbansketchers.org sem er teikniklúbbur á netinu fyrir þá sem hafa gaman af að skissa upp myndir á staðnum ef svo má segja. Það þýðir að ætlast er til að klúbbfélagar skissi undirbúningslaust eitthvað sem fyrir augu þeirra ber hvað svo sem það er. Ég rakst á síðuna af tilviljun þegar ég var að vafra um netið fyrir um tveimur árum og skráði mig félaga því mér fannst hún kjörinn vettvangur fyrir þá sem hafa gaman af að teikna. Klúbbfélagar, sem eru frá öllum heimshornum, af öllum stéttum og á öllum aldri, geta sent inn skissur sínar til birtingar. Sjálfur hef ég sett á síðuna og einnig á flickr.com nokkrar valdar skissur og líka stærri vatnslitamyndir sem ég hef verið að mála,“ segir Örn Bárður.

Handskrifað „Í Hedrum (áður Heidarheim) „Domkirken på akeren“. Sr. Þórir Jökull flutti hugvekju og Björn sagði frá kirkju og frímúrarastarfi og tengslum. Thor bóndi og sagnfræðingur fræddi. 29. sept. 2014“ skrifaði Örn Bárður.VISIR/PJETUR
Hann á þegar í fórum sínum þrjár nokkuð þykkar skissubækur og er langt kominn með þá fjórðu. Þótt margar skissur hans og vatnslitamyndir séu öllum aðgengilegar á netinu, hefur hann ekki flíkað þeim sérstaklega. Og skissubækurnar geymir hann í skjalatöskunni sinni. Samtals eru í þeim hátt í þrjú hundruð skissur. Séu þær skoðaðar í tímaröð má ráða í hvar hann hefur verið, jafnvel hvað hann hugsaði á því augnablikinu sem hann gerði skissurnar. Handskrifuðu nóturnar eru líka vísbendingar.

Spurður hvort hann hafi átt sér listamannsdrauma á árum áður svarar hann játandi. „Sem strákur teiknaði ég og málaði töluvert með vatnslitum og sextán ára fór ég að fikta með olíuliti. Síðan snerti ég ekki á neinu slíku fyrr en um fertugt, fór til dæmis í módelteikningu í Myndlistarskólanum. Pabbi var frístundamálari og dóttir mín er myndlistarmaður svo kannski er þetta eitthvað í genunum.“



Örn Bárður hefur mikinn áhuga á að taka aukinn þátt í starfi teikniklúbbsins, t.d. sækja námskeið og viðburði sem hann standi fyrir víða um heim. „Samfélagið á urbansketchers.org er skemmtilegt, fjölbreytt og gefandi. Listin lifir góðu lífi á netinu,“ segir hann.



Grasrótarsamtök á netinu

Urban Sketchers eru grasrótarsamtök, sem rekin eru án hagnaðarvonar. Bækistöðvarnar eru í Washington-fylki á vesturströnd Bandaríkjanna. Markmiðið er að vera vettvangur og samfélag skissara um allan heim, kynna verk þeirra og hvetja þá til dáða.

Stofnandi samtakanna er Spánverjinn Gabi Campanario, myndlistarlistarmaður og rithöfundur, sem m.a. er þekktur fyrir pistla sína í Seattle Times.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×