Menning

Hlutverk íslensku klaustranna fjölbreytt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Hér er Steinunn með snældusnúð frá Þingeyrum í Húnavatnssýslu, þar var eitt af fyrstu klaustrum á Íslandi.
Hér er Steinunn með snældusnúð frá Þingeyrum í Húnavatnssýslu, þar var eitt af fyrstu klaustrum á Íslandi. Vísir/GVA
„Ég ætla að segja frá hvernig klausturlifnaður fluttist til Íslands og hvernig hann varð hluti af íslenskri menningu og sögu.

Hugmynd margra er sú að klaustrin hafi verið fámenn á Íslandi og hafi einkum sinnt bókagerð en þegar rýnt er í skjöl kemur í ljós að þau gegndu mun fjölbreyttara hlutverki því þau voru miðstöð samfélagsþjónustu hér eins og annars staðar í Evrópu. Bókagerðin var einkum tekjulind hjá þeim,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur.

Í fyrirlestri á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands í dag fjallar hún um fyrstu niðurstöður rannsóknar sem hún hóf fyrir hálfu öðru ári á öllu sem viðkemur klausturlifnaði á Íslandi á miðöldum. Þar hefur hún leitað í skjölum, örnefnum, munnmælum og efnislegum leifum klaustranna á víðavangi.

Hún segir áhuga sinn á þessu efni hafa vaknað með rannsókninni á Skriðuklaustri sem hún stóð fyrir í áratug.

Klaustrin voru í alfaraleið. Fátækir gátu fengið þar skjól og mat, margir fluttu í þau í ellinni og létu jarðir sínar renna til þeirra, að sögn Steinunnar.

„Þótt reglufólkið, nunnur og munkar, væri ekki margt voru miklu fleiri. Þegar klaustrinu í Viðey var lokað 1538 voru 30 fátæklingar þar í fæði. Umsvifin í klaustrunum voru mikil, þeim fylgdu jarðeignir og yfir 100 nautgripir voru á flestum klausturjörðum.“

En voru nunnurnar og munkarnir Íslendingar?

„Já, nema einn og einn einstaklingur sem kom erlendis frá. Einu sinni voru átta nýjar nunnur vígðar á Reynistað í Skagafirði og bættust við þær sem voru fyrir.“

Steinunn flytur fyrirlestur sinn klukkan 16.30 í stofu 101 í Odda í Háskóla Íslands.



Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×