Útkjálkun Guðmundur Andri Thorsson skrifar 24. nóvember 2014 07:00 Ég held að rétt hafi verið hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að segja af sér en þar með er ekki sagt að ég sé hýena.Það er sú kveðja sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins kýs að senda fólki sem hafði eitthvað að athuga við stjórnsýslu Hönnu Birnu. Málið snýst ekki um þá, ekki um Tony Omos, ekki um blaðamenn DV, saksóknara, umboðsmann eða áhorfendur málsins. Það snýst um ráðherrann: henni varð á og því þarf hún að hætta, þótt hún vilji sjálf láta líta svo út sem hún hafi verið hrakin burt að ósekju. Af hýenum. Við vitum að þetta hlýtur að vera henni áfall og vonum örugglega flest að henni auðnist að finna sínum ótvíræðu hæfileikum frjóan og heilbrigðan farveg – en þetta, að vera ráðherra, er nú samt bara starf; það er ekki eins og hún hafi misst eitthvað sem skiptir raunverulega máli í lífinu og enn situr hún meira að segja á þingi; ráðherrastarf er vissulega vegtylla en við þurfum að fara að venja okkur við að líta á það sem tímabundna almannaþjónustu fremur en einhvers konar allsherjarhátign.„Guð vill að ég sé honum sólskinsbarn…“ Gangi henni vel. Ég verð að játa á mig það kaldlyndi að ég hef meiri áhyggjur af læknaverkfallinu en því að Hanna Birna hafi farið illa að ráði sínu og súpi seyðið af því. Þar með er ekki sagt að ég hati hana eða aðra – eða láti stjórnast af „hatrinu í samfélaginu“ svo að vísað sé til orðbragðs forsætisráðherrans í tengslum við þetta mál um leið og hann vísaði til greina Tímans árið 1938 sem hann telur hafa verið sérstakt sólskinsblað í málflutningi. Því miður er okkur flestum um megn að hljóma eins og Tíminn gerði árið 1938. Satt að segja getur það enginn – nema kannski hann sjálfur þegar svo ber undir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á enga heimtingu á því að fólk fallist umyrðalaust á orð hans. Maður þarf að vera sannfærandi sjálfur til að sannfæra aðra – maður getur ekki krafist þess að aðrir láti sannfærast. Það jafngildir ekki óeðli að draga rök hans í efa. Nú er ekki lengur árið 1938 og Tíminn er hættur að koma út. Eftir Hrun og á tímum hins villta internets hefur furðu margt fólk þá hugmynd að því sé heimilt að hugsa frjálst. Frjálsri hugsun fylgir alls konar vesen, frjáls skoðanaskipti geta verið alveg hundleiðinleg. En þetta er nú það sem ráðherrarnir fá kaup fyrir meðal annars: að vera sannfærandi. Þeir Bjarni Ben. og hann voru kannski fremur kosnir til að vera duglegir skaffarar en réttlátir stjórnvitringar – og milljarðahundruð að sögn á leiðinni frá Vogunarsjóðunum – en þeir verða samt að búa við það að almenningur hefur ekki þar með afsalað sér réttinum til frjálsra skoðanaskipta. Ekk enn.Aftur á móti var annað stríð… Ef einhver skyldi hafa gleymt því sem nú er stóra málið: Það er læknaverkfall í landinu vegna þess hvernig búið er að læknum þessa lands, hvað varðar kjör, starfsálag, umhverfi, viðmót ráðamanna og framtíðarhorfur. Læknaverkfall: þetta er í raun og veru bæði óhugsandi og óþolandi, og hvað þá að það dragist svona á langinn. Ef ekki semst við lækna nú missum við úr landi þetta unga fólk og verðum útkjálki þar sem læknar koma af og til, samvisku sinnar og þegnskapar vegna, og þjóna „héraðinu“. Þetta er eins og nokkurs konar „útkjálkun“ á Íslandi: hér verður réttlítið verkafólk á lélegu kaupi og yfirstétt sem sogar til sín fjármagn og verðmæti, fær sína heilbrigðisþjónustu í dýrum sérspítala meðan almenningur fær vonda læknisþjónustu hjá læknum sem sætta sig við léleg kjör. Aðgerðarleysi ráðherranna í þessu verkfalli er hneykslanlegt og beinlínis skelfilegt. Þeir yppa bara öxlum ráðherrarnir. Þetta er nánast eins og markvisst niðurbrot á opinberri þjónustu. Landspítalinn er látinn grotna niður: alls staðar er undirmannað, á öllum deildum ómennskt álag, unglæknum þrælað út á smánarkaupi: þakið lekur, það eru pöddur, það er ekki almennilega þrifið vegna þess að skúringafólki var sagt upp en verkið fengið þess háttar þrælahaldara sem fyrr á öldum fengu til sín niðursetninga vegna þess að þeir gátu boðið lægst – treystu sér til að hafa á framfæri sínu fólkið fyrir minnstan tilkostnað. Þeir yppa bara öxlum ráðherrarnir og spyrja: eiga læknar að fá meira en aðrir? Sjálfir telja þeir að einungis útgerðarmenn eigi að fá meira en aðrir. En svarið við spurningunni um læknana er: Að sjálfsögðu! Þetta er fólk sem hefur lagt á sig langt og erfitt nám til þess að lækna okkur, líkna okkur, hjálpa okkur á erfiðustu stundum lífsins. Er það planið að brjóta niður opinbera heilbrigðisþjónustu? Ég veit það ekki. En á meðan það lítur þannig út er beinlínis skylda okkar allra að gagnrýna störf ríkisstjórnarinnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Lekamálið Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Ég held að rétt hafi verið hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að segja af sér en þar með er ekki sagt að ég sé hýena.Það er sú kveðja sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins kýs að senda fólki sem hafði eitthvað að athuga við stjórnsýslu Hönnu Birnu. Málið snýst ekki um þá, ekki um Tony Omos, ekki um blaðamenn DV, saksóknara, umboðsmann eða áhorfendur málsins. Það snýst um ráðherrann: henni varð á og því þarf hún að hætta, þótt hún vilji sjálf láta líta svo út sem hún hafi verið hrakin burt að ósekju. Af hýenum. Við vitum að þetta hlýtur að vera henni áfall og vonum örugglega flest að henni auðnist að finna sínum ótvíræðu hæfileikum frjóan og heilbrigðan farveg – en þetta, að vera ráðherra, er nú samt bara starf; það er ekki eins og hún hafi misst eitthvað sem skiptir raunverulega máli í lífinu og enn situr hún meira að segja á þingi; ráðherrastarf er vissulega vegtylla en við þurfum að fara að venja okkur við að líta á það sem tímabundna almannaþjónustu fremur en einhvers konar allsherjarhátign.„Guð vill að ég sé honum sólskinsbarn…“ Gangi henni vel. Ég verð að játa á mig það kaldlyndi að ég hef meiri áhyggjur af læknaverkfallinu en því að Hanna Birna hafi farið illa að ráði sínu og súpi seyðið af því. Þar með er ekki sagt að ég hati hana eða aðra – eða láti stjórnast af „hatrinu í samfélaginu“ svo að vísað sé til orðbragðs forsætisráðherrans í tengslum við þetta mál um leið og hann vísaði til greina Tímans árið 1938 sem hann telur hafa verið sérstakt sólskinsblað í málflutningi. Því miður er okkur flestum um megn að hljóma eins og Tíminn gerði árið 1938. Satt að segja getur það enginn – nema kannski hann sjálfur þegar svo ber undir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á enga heimtingu á því að fólk fallist umyrðalaust á orð hans. Maður þarf að vera sannfærandi sjálfur til að sannfæra aðra – maður getur ekki krafist þess að aðrir láti sannfærast. Það jafngildir ekki óeðli að draga rök hans í efa. Nú er ekki lengur árið 1938 og Tíminn er hættur að koma út. Eftir Hrun og á tímum hins villta internets hefur furðu margt fólk þá hugmynd að því sé heimilt að hugsa frjálst. Frjálsri hugsun fylgir alls konar vesen, frjáls skoðanaskipti geta verið alveg hundleiðinleg. En þetta er nú það sem ráðherrarnir fá kaup fyrir meðal annars: að vera sannfærandi. Þeir Bjarni Ben. og hann voru kannski fremur kosnir til að vera duglegir skaffarar en réttlátir stjórnvitringar – og milljarðahundruð að sögn á leiðinni frá Vogunarsjóðunum – en þeir verða samt að búa við það að almenningur hefur ekki þar með afsalað sér réttinum til frjálsra skoðanaskipta. Ekk enn.Aftur á móti var annað stríð… Ef einhver skyldi hafa gleymt því sem nú er stóra málið: Það er læknaverkfall í landinu vegna þess hvernig búið er að læknum þessa lands, hvað varðar kjör, starfsálag, umhverfi, viðmót ráðamanna og framtíðarhorfur. Læknaverkfall: þetta er í raun og veru bæði óhugsandi og óþolandi, og hvað þá að það dragist svona á langinn. Ef ekki semst við lækna nú missum við úr landi þetta unga fólk og verðum útkjálki þar sem læknar koma af og til, samvisku sinnar og þegnskapar vegna, og þjóna „héraðinu“. Þetta er eins og nokkurs konar „útkjálkun“ á Íslandi: hér verður réttlítið verkafólk á lélegu kaupi og yfirstétt sem sogar til sín fjármagn og verðmæti, fær sína heilbrigðisþjónustu í dýrum sérspítala meðan almenningur fær vonda læknisþjónustu hjá læknum sem sætta sig við léleg kjör. Aðgerðarleysi ráðherranna í þessu verkfalli er hneykslanlegt og beinlínis skelfilegt. Þeir yppa bara öxlum ráðherrarnir. Þetta er nánast eins og markvisst niðurbrot á opinberri þjónustu. Landspítalinn er látinn grotna niður: alls staðar er undirmannað, á öllum deildum ómennskt álag, unglæknum þrælað út á smánarkaupi: þakið lekur, það eru pöddur, það er ekki almennilega þrifið vegna þess að skúringafólki var sagt upp en verkið fengið þess háttar þrælahaldara sem fyrr á öldum fengu til sín niðursetninga vegna þess að þeir gátu boðið lægst – treystu sér til að hafa á framfæri sínu fólkið fyrir minnstan tilkostnað. Þeir yppa bara öxlum ráðherrarnir og spyrja: eiga læknar að fá meira en aðrir? Sjálfir telja þeir að einungis útgerðarmenn eigi að fá meira en aðrir. En svarið við spurningunni um læknana er: Að sjálfsögðu! Þetta er fólk sem hefur lagt á sig langt og erfitt nám til þess að lækna okkur, líkna okkur, hjálpa okkur á erfiðustu stundum lífsins. Er það planið að brjóta niður opinbera heilbrigðisþjónustu? Ég veit það ekki. En á meðan það lítur þannig út er beinlínis skylda okkar allra að gagnrýna störf ríkisstjórnarinnar.