Innlent

Merkjanlegar breytingar á hegðun gossins

Svavar Hávarðsson skrifar
Hraunbreiðan er orðin rúmlega 72 ferkílómetrar að stærð – og enn gýs kröftuglega.
Hraunbreiðan er orðin rúmlega 72 ferkílómetrar að stærð – og enn gýs kröftuglega. mynd/mortenriishuus
„Hópur sem var á svæðinu í síðustu viku, sem Ármann Höskuldsson leiddi, sá þetta gerast,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um breytingar á hraunrennsli og útstreymi gass í gosmekkinum frá eldstöðinni í Holuhrauni, sem hvort tveggja er sveiflukenndara en áður.

Frá þessum breytingum er greint stuttlega í skýrslu vísindamannaráðs í gær. Þar segir einnig að annars vegar séu sveiflur sem taka margar klukkustundir og hins vegar smærri sveiflur á tíu til tuttugu sekúndna fresti.

Magnús Tumi segir lítið hægt að lesa í þessa „breyttu hegðun“ eldgossins. Erfitt sé að segja til um hvað þarna er á ferðinni. Hins vegar hafi eitt af einkennum gossins hingað til verið hversu stöðugt gasútstreymi og hraunrennslið frá eldstöðinni hefur verið. Miklu algengara sé í hraungosum að framleiðsla gosefnanna sé breytileg eftir tímabilum.

Fyrstu niðurstöður frá nýjum jarðskjálftamæli sem settur var upp á Bárðarbungu 11. nóvember sýna að sigskjálftarnir í Bárðarbungu verða í efstu þremur kílómetrum jarðskorpunnar, en ekki á fimm til átta kílómetra dýpi eins og lengi hefur verið talið.

Þetta bendir til þess að grynnra sé niður á kviku en áður var talið, segir Magnús Tumi en breytir ekki miklu hvað varðar þær sviðsmyndir sem vísindamenn hafa unnið með til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×