Markaðsvæðing lífsgæðanna Guðmundur Andri Thorsson skrifar 1. desember 2014 00:00 Einhver örgustu falsorð seinni tíma eru „frjálshyggja“ og „nýfrjálshyggja“ þegar í raun og veru er átt við hugmyndafræði sem nær væri að kenna við „auðhyggju“ og „markaðsnauðhyggju“. Þessari stefnu fylgir nefnilega frelsisskerðing fyrir hinn breiða fjölda; fáum auðmönnum er hyglað á kostnað hinna mörgu og almannahagsmunir látnir lönd og leið, og allt í einu þarf að borga einhverjum fyrir sjálfsögðustu réttindi, samkvæmt þeirri hugsjón að hlutirnir séu einskis virði nema einhver græði á þeim. Ekki er linnt látum fyrr en tekist hefur að koma því sem enginn á – og þar með við öll – í eigu útvalinna. Kvótakerfið og „frjáls“ viðskipti með réttinn til að nýta þjóðareignina hefur þannig í för með sér frelsisskerðingu fyrir venjulegt fólk að sækja sjóinn nema með því að greiða skatt til kvótaeigenda. Þeir geyma þennan skatt af sameign þjóðarinnar í leynihólfum heimsins og nota hann til að kaupa sér forréttindi og séraðgang að því sem ætti að vera almannaeign, eins og sést til dæmis á viðleitni til að einkavæða útsýnið til Esjunnar í miðbæ Reykjavíkur; nokkurs konar einkavæðing Esjunnar. Ríkisstjórn landsins lítur á það sem eitt sitt helsta hlutverk að gæta þess að ekki sé hróflað við þessum forréttindum.Blóðbergsskatturinn Og nú eru ófrjálshyggjumennirnir með nýtt ófrelsisfrumvarp í smíðum. Nú á enn að fara að rukka okkur fyrir að vera til og gera það sem fram til þessa hefur verið sjálfsagður hluti af tilveru okkar hér á landi. Nú þurfum við að borga einhverjum væntanlegum ólígörkum ríkisstjórnarinnar sérstakan skatt fyrir að fara í berjamó, skoða fossa, ganga á fjöll, liggja í lautu og anda að okkur ilminum af blóðbergi, birki og fjalldrapa, sem er ilmurinn af Íslandi. Þessi blóðbergsskattur, nefndur „náttúrupassi“, sem til stendur að leggja á landsmenn er af sama toga og matarskatturinn illræmdi. Skattheimtunni er beint frá „eigendum“ auðlindanna, „framleiðendum“ varningsins og að almenningi. Með sama áframhaldi verðum við látin borga fyrir réttinn til að drekka vatn og anda að okkur fersku lofti. Þetta er markaðsvæðing lífsgæðanna. Það mun vera einhver ábatasamasta iðja í heimi að selja Íslendingum nauðsynjar. Í hópi útrásarvíkinga fóru þeir fremstir í flokki, alfrjálsir af kostnaðarvitund, sem komið höfðu undir sig fótunum með því að selja Íslendingum grænmeti, bensín, bíla, tryggingar og aðrar einokaðar lífsnauðsynjar og töldu sér alla vegi færa eftir það. Hér höfum við löngum átt stjórnvöld sem hafa sýnt því mikinn og ríkan skilning – og aldrei sem nú – að framleiðendur og seljendur matvöru þurfi að njóta „frelsis“ til að hafa verðlag eins hátt og hugmyndaflug þeirra leyfir. Í rauninni má segja að íslenskt launafólk sé nokkurs konar auðlind fyrir þessa umsvifamenn, nokkurs konar veiðistofn sem þeir skiptast á að nýta og greiða hver öðrum fyrir aðganginn að. Nýi blóðbergsskatturinn er partur af þessu. Nú á að nýta auðlindina „íslenskan almenning“ með nýjum hætti. Tekið er gjald af fólki fyrir að nýta sér það sem hingað til hefur verið talinn nokkurs konar frumburðarréttur hvers Íslendings, og því dreift á milli fólks í ferðaþjónustu af einhverjum vildarskömmtunarstjórum sem Sjálfstæðismenn hafa verið svo duglegir að búa til gegnum tíðina.Skattur á hvað? Hvar þarf maður að sýna þennan passa? Þegar maður fer að skoða Goðafoss en ekki þegar maður fer í berjamó? Þegar maður fer í berjamó í grennd við Goðafoss? Þegar maður er á sandblásnum mel? Í lúpínubreiðum? Þegar manni finnst eitthvað fallegt? Er þetta sérstakur náttúrufegurðarskattur svona í anda þess að skattleggja bókmenntir, fagrar listir og hollan mat sérstaklega en hvetja fólk sérstaklega til að borða sykur? Er þetta skattur á unaðarkennd? Þarf ég að borga skatt í hvert sinn sem ég lít í áttina að Snæfellsjökli (áður en þau múra upp í hann líka) og finn þessa sérstöku tilfinningu sem ég kem ekki í orð? Við eigum ekki margt lengur saman, þessi vesalings sundraða og sundurlynda þjóð og því fækkar stöðugt sem okkur finnst við eiga sameiginlegt, ekki síst vegna þess að auðlindaeigendurnir eru alltaf að reyna að etja okkur saman. Við eigum samt þetta, sem verður varla komið í orð. Einhver hulin tilfinning fyrir landinu og víðáttunni, viss rýmiskennd sem er öðruvísi hér en víðast hvar, hvernig svo sem uppruna og ætt er annars háttað og hvað sem líður skömmustunni yfir þjóðrembudellu útrásarinnar. Einhvers konar samband við landið, þessi kennd að elska landið, eiga landið og láta landið eiga sig. Sjálfstæðismenn vilja ekki að fólk hafi þessa tilfinningu fyrir landinu sínu. Því á að finnast sem Ísland sé í eigu annarra en þjóðarinnar. Þeir líta svo á að vatnið og vindurinn, víðáttan og veðrið – anganin af blóðberginu og birkibrekkunni – þetta sé allt bara vörur á markaði sem einhver verði að eiga, annars sé það einskis virði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun Furðuleg réttlæting á hækkun verðtryggðra vaxta Marinó G. Njálsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun
Einhver örgustu falsorð seinni tíma eru „frjálshyggja“ og „nýfrjálshyggja“ þegar í raun og veru er átt við hugmyndafræði sem nær væri að kenna við „auðhyggju“ og „markaðsnauðhyggju“. Þessari stefnu fylgir nefnilega frelsisskerðing fyrir hinn breiða fjölda; fáum auðmönnum er hyglað á kostnað hinna mörgu og almannahagsmunir látnir lönd og leið, og allt í einu þarf að borga einhverjum fyrir sjálfsögðustu réttindi, samkvæmt þeirri hugsjón að hlutirnir séu einskis virði nema einhver græði á þeim. Ekki er linnt látum fyrr en tekist hefur að koma því sem enginn á – og þar með við öll – í eigu útvalinna. Kvótakerfið og „frjáls“ viðskipti með réttinn til að nýta þjóðareignina hefur þannig í för með sér frelsisskerðingu fyrir venjulegt fólk að sækja sjóinn nema með því að greiða skatt til kvótaeigenda. Þeir geyma þennan skatt af sameign þjóðarinnar í leynihólfum heimsins og nota hann til að kaupa sér forréttindi og séraðgang að því sem ætti að vera almannaeign, eins og sést til dæmis á viðleitni til að einkavæða útsýnið til Esjunnar í miðbæ Reykjavíkur; nokkurs konar einkavæðing Esjunnar. Ríkisstjórn landsins lítur á það sem eitt sitt helsta hlutverk að gæta þess að ekki sé hróflað við þessum forréttindum.Blóðbergsskatturinn Og nú eru ófrjálshyggjumennirnir með nýtt ófrelsisfrumvarp í smíðum. Nú á enn að fara að rukka okkur fyrir að vera til og gera það sem fram til þessa hefur verið sjálfsagður hluti af tilveru okkar hér á landi. Nú þurfum við að borga einhverjum væntanlegum ólígörkum ríkisstjórnarinnar sérstakan skatt fyrir að fara í berjamó, skoða fossa, ganga á fjöll, liggja í lautu og anda að okkur ilminum af blóðbergi, birki og fjalldrapa, sem er ilmurinn af Íslandi. Þessi blóðbergsskattur, nefndur „náttúrupassi“, sem til stendur að leggja á landsmenn er af sama toga og matarskatturinn illræmdi. Skattheimtunni er beint frá „eigendum“ auðlindanna, „framleiðendum“ varningsins og að almenningi. Með sama áframhaldi verðum við látin borga fyrir réttinn til að drekka vatn og anda að okkur fersku lofti. Þetta er markaðsvæðing lífsgæðanna. Það mun vera einhver ábatasamasta iðja í heimi að selja Íslendingum nauðsynjar. Í hópi útrásarvíkinga fóru þeir fremstir í flokki, alfrjálsir af kostnaðarvitund, sem komið höfðu undir sig fótunum með því að selja Íslendingum grænmeti, bensín, bíla, tryggingar og aðrar einokaðar lífsnauðsynjar og töldu sér alla vegi færa eftir það. Hér höfum við löngum átt stjórnvöld sem hafa sýnt því mikinn og ríkan skilning – og aldrei sem nú – að framleiðendur og seljendur matvöru þurfi að njóta „frelsis“ til að hafa verðlag eins hátt og hugmyndaflug þeirra leyfir. Í rauninni má segja að íslenskt launafólk sé nokkurs konar auðlind fyrir þessa umsvifamenn, nokkurs konar veiðistofn sem þeir skiptast á að nýta og greiða hver öðrum fyrir aðganginn að. Nýi blóðbergsskatturinn er partur af þessu. Nú á að nýta auðlindina „íslenskan almenning“ með nýjum hætti. Tekið er gjald af fólki fyrir að nýta sér það sem hingað til hefur verið talinn nokkurs konar frumburðarréttur hvers Íslendings, og því dreift á milli fólks í ferðaþjónustu af einhverjum vildarskömmtunarstjórum sem Sjálfstæðismenn hafa verið svo duglegir að búa til gegnum tíðina.Skattur á hvað? Hvar þarf maður að sýna þennan passa? Þegar maður fer að skoða Goðafoss en ekki þegar maður fer í berjamó? Þegar maður fer í berjamó í grennd við Goðafoss? Þegar maður er á sandblásnum mel? Í lúpínubreiðum? Þegar manni finnst eitthvað fallegt? Er þetta sérstakur náttúrufegurðarskattur svona í anda þess að skattleggja bókmenntir, fagrar listir og hollan mat sérstaklega en hvetja fólk sérstaklega til að borða sykur? Er þetta skattur á unaðarkennd? Þarf ég að borga skatt í hvert sinn sem ég lít í áttina að Snæfellsjökli (áður en þau múra upp í hann líka) og finn þessa sérstöku tilfinningu sem ég kem ekki í orð? Við eigum ekki margt lengur saman, þessi vesalings sundraða og sundurlynda þjóð og því fækkar stöðugt sem okkur finnst við eiga sameiginlegt, ekki síst vegna þess að auðlindaeigendurnir eru alltaf að reyna að etja okkur saman. Við eigum samt þetta, sem verður varla komið í orð. Einhver hulin tilfinning fyrir landinu og víðáttunni, viss rýmiskennd sem er öðruvísi hér en víðast hvar, hvernig svo sem uppruna og ætt er annars háttað og hvað sem líður skömmustunni yfir þjóðrembudellu útrásarinnar. Einhvers konar samband við landið, þessi kennd að elska landið, eiga landið og láta landið eiga sig. Sjálfstæðismenn vilja ekki að fólk hafi þessa tilfinningu fyrir landinu sínu. Því á að finnast sem Ísland sé í eigu annarra en þjóðarinnar. Þeir líta svo á að vatnið og vindurinn, víðáttan og veðrið – anganin af blóðberginu og birkibrekkunni – þetta sé allt bara vörur á markaði sem einhver verði að eiga, annars sé það einskis virði.