Lífið

Semja og leika allt sjálf í nýju jólaleikriti

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Þau Eik Haraldsdóttir, Brynjólfur Skúlason, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Sigurður Bogi Ólafsson, Sandra Dögg Kristjánsdóttir, Sóley Dögg Rúnarsdóttir, Egill Andrason og Arndís Eva Erlingsdóttir skipa leikhópinn Englana.
Þau Eik Haraldsdóttir, Brynjólfur Skúlason, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Sigurður Bogi Ólafsson, Sandra Dögg Kristjánsdóttir, Sóley Dögg Rúnarsdóttir, Egill Andrason og Arndís Eva Erlingsdóttir skipa leikhópinn Englana. Vísir/Eyþór Ingi Jónsson.
„Við vorum að leika saman í Gullna hliðinu hjá Leikfélagi Akureyrar og sýndum það svo í Borgarleikhúsinu, Við vorum alltaf að keyra á milli og þá datt okkur í hug að gera leikrit saman,“ segir Eik Haraldsdóttir, 12 ára, úr leikhópnum Englarnir. Krakkarnir sömdu saman leikritið Týndu jólin sem frumsýnt verður á föstudag.

„Leikritið er um tvö systkini og það er ekkert jólalegt heima hjá þeim svo þau fara að leita að jólunum og þau hitta meðal annars Grýlu og jólasveinana,“ segir Eik, en krakkarnir í hópnum eru á aldrinum 12-15 ára og sjá þau um allt sjálf.

„Við fengum að nota búninga hjá leikfélaginu og gamli leikhússtjórinn hún Ragnheiður hefur líka hjálpað okkur mikið og leyfir okkur að sýna í Rýminu sem leikfélagið á,“ segir Eik.

Krakkarnir byrjuðu að semja leikritið í september og núna standa stífar æfingar yfir enda styttist í frumsýningu. „Við æfum þrisvar í viku milli átta og tíu á kvöldin svo það rekist ekki á neinar aðrar æfingar eða skólann,“ segir hún.

Aðeins tvær sýningar verða í boði, klukkan 17 og 19 á föstudag. En ætla þau að semja meira? „Okkur langar að gera annað leikrit, en þá kannski bara um sumarið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×