Menning

Getum ekki hætt með Augastein

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Ævintýrið um Augastein Felix hefur leikið í sýningunni síðan 2002 með tveggja ára hléi.
Ævintýrið um Augastein Felix hefur leikið í sýningunni síðan 2002 með tveggja ára hléi. Vísir/GVA
„Ég var í rauninni alveg hættur að leika í sýningunni en nú fékk ég tækifæri til að rifja upp kynnin við Stein gamla á nýjan leik,“ segir Felix Bergsson sem á sunnudaginn stígur á svið í verki sínu Ævintýrinu um Augastein í Tjarnarbíói. „Ég er búinn að leika eina sýningu núna á aðventunni og það var bara mjög gaman.“

Ævintýrið um Augastein var upphaflega samið á ensku og frumsýnt í Drill Hall leikhúsinu í London 2002, en ári síðar var verkið frumflutt í íslenskri útgáfu í Tjarnarbíói. Þá kom ævintýrið einnig út á bók, sem notið hefur mikilla vinsælda æ síðan. Fyrir tveimur árum rétti Felix Bergsson keflið til Orra Hugins Ágústssonar, en Felix hafði þá leikið sýninguna fyrir tíu jól. Orri lék 2012 og 2013, en nú er Orri svo upptekinn við að leika í Línu Langsokk í Borgarleikhúsinu að Felix þarf að hlaupa undir bagga, var hann ekkert farinn að ryðga í rullunni? „Tja, svolítið, en það var fljótt að koma til baka.“ Og þú ert ekkert orðinn leiður á þessu verki eftir öll þessi ár? „Alls ekki, við höldum áfram mörg ár í viðbót,“ segir Felix. „Ég hitti í flugi um daginn flugfreyju sem var að koma á sýninguna með börnin sín ellefta árið í röð og þá þyrmdi yfir mig að við getum aldrei hætt þessu. Það er óskaplega gleðilegt að fólk sé farið að líta á ferð á Ævintýrið um Augastein sem ómissandi hluta af jólaundirbúningum.“

Felix stígur á svið í Tjarnarbíói á sunnudaginn, 13. desember, klukkan 14 og það verður síðasta sýningin fyrri þessi jól.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×