Körfubolti

Durant sneri aftur með látum | Myndbönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kevin Durant sneri aftur eftir sex leikja fjarveru vegna meiðsla og skoraði 44 stig er Oklahoma City hafði betur gegn Phoenix í framlengdum leik, 137-134.

Durant hefur verið að glíma við ökklameiðsli en hann nýtti þrettán af 23 skotum sínum í leiknum og öll tólf vítaskotin sín. Hann var líka með tíu fráköst og sjö stoðsendingar.

Russell Westbrook fékk tvær tæknivillur með skömmu millibili seint í fyrri hálfleik og var því vísað af velli. Hann skoraði þó 20 stig í leiknum en stigahæstur hjá Phoenix var Eric Bledsoe með 29 stig.

San Antonio vann New Orleans, 95-93, þar sem Manu Ginobili skoraði 26 stig - þar af sjö í framlengingu. New Orleans komst mest sex stigum yfir í framlengingunni en meistararnir höfðu að lokum betur.

Tim Duncan var með sextán stig og tíu fráköst og náði þar með sinni 814. tvöföldu tvennu á ferlinum. Þar með jafnaði hann árangur Karl Malone en aðeins fjórir leikmenn eiga fleiri tvöfaldar tvennur í sögu NBA-deildarinnar.

Tyreke Evans virtist hafa tryggt New Orleans sigur þegar 0,7 sekúndur voru eftir en Duncan náði að skora eftir að hafa stýrt innkasti Boris Diaw rétta leið rétt áður en leiktíminn rann út.

Milwaukee vann Cleveland á útivelli, 98-80. Sigurinn var öruggur en LeBron James missti af sínum öðrum leik í röð vegna hnémeiðsla. Kevin Love var einnig frá vegna meiðsla en Cleveland hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum.

Houston vann Charlotte, 102-83, eftir að hafa tapað tveimur leikjum í röð. James Harden var með 36 stig.

Úrslit næturinnar:

Boston - Sacramento 106-84

Indiana - Miami 106-95

LA Clippers - New York 99-78

Houston - Charlotte 102-83

Cleveland - Milwaukee 80-96

San Antonio - New Orleans 95-93

Oklahoma City - Phoenix 137-134

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×