Körfubolti

Kobe Bryant fer í aðgerð á öxl og tímabilið er búið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Vísir/Getty
Kobe Bryant þarf að fara í axlaraðgerð á morgun og hefur væntanlega spilað sinn síðasta leik á tímabilinu með Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta.

Kobe Bryant varð fyrir meiðslunum í síðustu viku en hann meiddist á rotator-cuff vöðvanum í hægri öxl.

Vanalega þurfa menn sex til átta mánaða endurhæfingu eftir svona axlaraðgerð og verði Kobe það lengi frá er tímabilið á enda hjá honum.

Los Angeles Lakers á enga möguleika á sæti í úrslitakeppninni og því engar líkur á því að forráðamenn félagsins reki á eftir Kobe að koma til baka.

Þetta er þriðja tímabilið í röð hjá Kobe Bryant sem endar á slæmum meiðslum en hann sleit hásin vorið 2013 og meiddist síðan á hné stuttu eftir endurkomu sína tímabilið 2013-14.

Þetta er 19. tímabilið hjá Kobe Bryant en hann var með 22,3 stig, 5,7 fráköst og 5,6 stoðsendingar að meðaltali í 35 leikjum á leiktíðinni sem eru alls ekki slæmar tölur fyrir 36 ára gamlan leikmann.

Kobe varð þriðji stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar fyrr á þessu tímabili þegar hann komst upp fyrir Michael Jordan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×