Talsverðar umræður hafa verið í Bretlandi að undanförnu eftir að tilkynnt var að tónlistarmaðurinn Ed Sheeran muni koma fram á þrennum tónleikum á Wembley leikvanginum í London í sumar. Fyrrum Oasis gítarleikarinn Noel Gallagher lét t.d. hafa eftir sér að hann vildi ekki búa í heimi þar sem að uppselt væri á svo marga tónleika með Ed Sheeran sem tók þó gagnrýni Gallagher vel. Sheeran hefur nú sagt að hann hafi alls ekki móðgast við þessi ummæli Noel Gallagher heldur líti hann á þetta sem heiður. Þá hafi hann náð að útvega sér símanúmeri Gallagher og sent honum sms þar sem hann bauð honum miða á tónleikana. Noel Gallagher hafi svo sett sig í samband og sagt að dætur hans myndu elska að fá miða á tónleikana.

Hljómsveitin The Black Keys hefur neyðst til að hætta við fyrirhugaða tónleikaferð sína til Bretlands eftir að trommarinn Patrick Carney fór úr axlarlið í undarlegu sundslysi fyrr í mánuðinum. Trommarinn skellti sér í sjóinn þar sem hann var í fríi í Karabíska hafinu en risastór alda skall þá á honum með þeim afleiðingum að hann slasaðist á öxlinni. Nú er orðið ljóst að hann hefur ekki náð fullum bata og þarf hljómsveitin því að hætta við tónleikaferð sína í Bretlandi.