Körfubolti

Chris Paul um kvendómara í NBA: Kannski ekki rétta starfið fyrir hana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul og Lauren Holtkamp.
Chris Paul og Lauren Holtkamp. Vísir/Getty
Chris Paul, leikstjórnandi Los Angeles Clippers og stjörnuleikmaður Vesturdeildarinnar, var allt annað en sáttur með dómarann Lauren Holtkamp í tapi á móti Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Lauren Holtkamp er önnur tveggja kvenna sem dæmir í NBA-deildinni í vetur en hún gaf Chris Paul tæknivillu í leiknum þegar 10:17 voru eftir af þriðja leikhlutanum.

Leikmenn Los Angeles Clippers voru þá að reyna að koma boltanum sem fyrst í leik eftir vítaskot hjá Cleveland-liðinu og Chris Paul var ekki ánægður með að Lauren Holtkamp stoppaði það.

„Þessi tæknivilla sem ég fékk var fáránleg. Þetta var skelfilegt. Það er ekki möguleiki að þetta sé tæknivilla," sagði Chris Paul við blaðamenn eftir leikinn.

„Við reynum alltaf að koma boltann fljótt upp völlinn og þegar við reyndum það þarna þá sagði hún: Uh-uh. Ég sagði: Af hverju Uh-uh. Hún gaf mér þá tæknivillu. Þetta er fáránlegt. Þetta er kannski ekki rétta starfið fyrir hana," sagði Chris Paul.

Los Angeles Clippers fékk annars fimm tæknivillur í leiknum og Matt Barnes var rekinn út úr húsi eftir að hafa fengið sína aðra tæknivillu.

Lauren Holtkamp er 33 ára og þriðja konan sem dæmir í NBA. Hinar eru Dee Kantner (nú yfirmaður dómara í WNBA-deildinni) og Violet Palmer (dæmir í NBA í dag).

Bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað um ummæli Chris Paul og nú er að sjá hvort að hann hafi nælt sér í sekt hjá Adam Silver.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×