Þættirnir um blinda lögmanninn Matt Murdock, þar sem hann berst við glæpamenn á götum New York, eru fyrsta sjónvarpsserían í samstarfi Marvel og Netflix. Með samstarfi fyrirtækjanna er ætlunin að opna fleiri hliðar á ofurhetjusögum Marvel, en sést hafa í kvikmyndum hingað til.
Margir hverjir muna kannski eftir kvikmyndinni Daredevil, með Ben Affleck í aðalhlutverki, sem kom út árið 2003.
Að þessu sinni leikur Charlie Cox aðalhlutverkið en á vefnum IGN, þar sem stiklan birtist fyrst, segir að hann hafi slegið í gegn í áheyrnarprufum fyrir hlutverkið.
Í stiklunni sést Daredevil í búningi sem er svartur, en hann er þekktur fyrir vínrauðan leðurbúning sinn. Höfundar þáttanna segja það hafa verið gert til að sýna upphaf Matt Murdock sem Daredevil.