Innlent

Bárujárnsþök ryðga fyrir austan út af súru regni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikið útstreymi af gasi kemur frá eldgosinu í Holuhrauni, og þá sérstaklega af brennisteinsdíoxíði.
Mikið útstreymi af gasi kemur frá eldgosinu í Holuhrauni, og þá sérstaklega af brennisteinsdíoxíði. Vísir/Guðbergur Davíðsson
Mælingar sem Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun hafa gert á efnasamsetningu úrkomu eftir að eldgosið í Holuhrauni hófst leiða í ljós að 40% regnvatns sýna einkenni gosmengunar. Frá þessu greindi Andri Stefánsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, á íbúafundi á Reyðarfirði í gær.

„Við gerum mælingar á 21 stað á landinu, víðs vegar um landið. Gasið sem berst upp úr Holuhrauni, sem er aðallega brennisteinsdíoxíð, umbreytist í brennisteinssýru í andrúmsloftinu og getur valdið súru regnu,“ segir Andri í samtali við Vísi og bætir við að önnur efni, eins og klór og flúor, leysist líka upp í regnvatninu.

Efnin hlaðast upp í snjónum og fara út í ár og vötn þegar snjóa leysir

Að sögn Andra greinist efnasamsetning regnvatns, sem rekja má beint til gossins í Holuhrauni, um nánast allt land. Aðspurður hvort að þetta sé hættulegt segir Andri:

„Í dag fellur þetta náttúrulega mikið sem snjór. Efnin hlaðast þá upp í snjónum yfir vetrartímann á hálendinu, meðal annars, og svo þegar leysingar eru á vorin þá skolast þetta mjög hratt út í árnar, stöðuvötnin og alveg út í sjó.“

Andri segir að þá myndist svokallaðir efnapúlsar sem geti haft töluverð áhrif á lífríki í ám og vötnum. Þá geti súra regnið sem fellur beint á jörð einnig haft veruleg áhrif á plöntur og gróðurfar og svo komist upp í lífkeðjuna í gegnum grasbíta.

Súrnunin getur haft veruleg áhrif á umhverfi okkar

„Súrnunin hefur líka áhrif á okkar daglega líf. Þetta náttúrulega tærir málma og getur til dæmis haft áhrif á lakk á bílum. Ég heyrði svo sögu frá austan að til dæmis nýsinkhúðuð bárujárnsþök hafa strax látið á sjá í vetur og bara ryðga. Súrt regn getur því haft veruleg áhrif á okkar umhverfi,“ segir Andri.

Hann segir mikið útstreymi af gasi koma frá eldgosinu í Holuhrauni, og þá sérstaklega af brennisteinsdíoxíði.

„Tölurnar eru nú kannski eitthvað óljósar, því það eru auðvitað sveiflur í þessu, en þetta eru svona 20.000-80.000 tonn af gasi á dag. Það er því mikið magn sem kemur upp og svo er þetta líka búið að standa í langan tíma þannig að heildarmagnið er mjög mikið. Það hefur auðvitað áhrif.“


Tengdar fréttir

Landlæknir kannar áhrif gosmengunar á heilsu fólks

Kostnaður ríkissjóðs vegna jarðhræringanna í og við Vatnajökul er áætlaður tæpar 700 milljónir á þessu ári – miðað við óbreytt ástand. Landlæknir fylgist með áhrifum mengunarinnar líkt og gert var eftir Eyjafjallajökulsgosið.

Mengun úr Holuhrauni dreifðist víða um land

Mengun frá gosstöðvunum í Holuhrauni barst víða um land í dag og hefur dreifing hennar aldrei verið meiri. Fjölmargir höfðu samband við Veðurstofu Íslands í dag og kvörtuðu undan einkennum megnunarinnar sem fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×