Körfubolti

Stoudemire til Dallas Mavericks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amar'e Stoudemire.
Amar'e Stoudemire. Vísir/Getty
Amar'e Stoudemire mun klára tímabilið með liði Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta samkvæmt bandarískum fjölmiðlum en hann var nýbúinn að fá sig lausan frá New York Knicks.

Forráðamenn New York Knicks keyptu Stoudemire út úr risasamningi sínum sem átti annars að renna út í sumar.

Stoudemire má þó ekki ganga frá samningi sínum við Dallas Mavericks fyrr en á miðvikudaginn eða þegar hann er endanlega laus allra mála hjá New York liðinu.

Stoudemire er orðinn 32 ára gamall en hann var með 17,3 stig og 6,7 fráköst að meðaltali í 255 leikjum sínum með New York Knicks.

Amar'e Stoudemire vildi komast í lið sem ætti möguleika á því að keppa um titilinn og New York Knicks var tilbúið að sjá á eftir honum.

Fyrsti leikur Amar'e Stoudemire með Dallas Mavericks gæti verið strax á fimmtudaginn þegar liðið heimsækir Oklahoma City Thunder.

Dallas þurfti að styrkja sig inn í teig en liðið lét frá sér menn þegar það fékk til sín leikstjórnandann Rajon Rondo frá Boston.

Stoudemire var ein af stóru stjörnunum í deildinni þegar hann gerði fimm ára samning við New York Knicks árið 2010, samning sem gaf honum um hundrað milljónir dollara í vasann eða meira en 13 milljarða íslenskra króna.

 

Hann hefur misst mikið af leikjum á þessum fimm árum vegna meiðsla og lítið hefur einnig gengið í að gera New York Knicks að liði sem gæti barist um titilinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×