Körfubolti

Öruggt hjá Golden State gegn meisturunum | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Curry fór illa með meistara San Antonio Spurs í nótt.
Stephen Curry fór illa með meistara San Antonio Spurs í nótt. vísir/afp
Þrettán leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Topplið Vesturdeildarinnar, Golden State Warriors, átti ekki í miklum vandræðum með að leggja meistara San Antonio Spurs á heimavelli.

Golden State var mun sterkari aðilinn en liðið leiddi með 21 stigi, 89-68, eftir þrjá leikhluta. Meistarnir löguðu stöðuna í lokaleikhlutanum en náðu aldrei að ógna forystu Stríðsmannanna.

Stephen Curry fór mikinn í liði Golden State með 25 stig og 11 stoðsendingar. Klay Thompson kom næstur með 20 stig en þriggja stiga nýting Stríðsmannanna var frábær í leiknum, eða 51,5%.

Toronto vann góðan sigur, 105-80, á Atlanta Hawks í toppslag í Austurdeildinni. Haukarnir tróna þó enn á toppi Austurdeildarinnar, hafa unnið 43 leiki og tapað 12. Toronto kemur þar á eftir með 37 sigra og 17 töp.

Lou Williams skoraði 26 stig gegn sínum gömlu félögum en Demar DeRozan kom næstur í liði Toronto með 21 stig.

Paul Millsap, Kyle Korver og Jeff Teague skoruðu 11 stig hver fyrir Atlanta.

LeBron James skoraði 28 stig á aðeins 25 mínútum þegar Cleveland Cavaliers vann stórsigur á Washington Wizards, 127-89.

Cleveland leiddi með 14 stigum í leikhléi, 65-51, og bætti svo jafnt og þétt við forskotið í seinni hálfleik.

Kyrie Irving var öflugur sömuleiðis í liði Cleveland með 25 stig og sjö stoðsendingar.

Brasilíumaðurinn Nene og leikstjórnandinn John Wall skoruðu 18 stig hvor fyrir Washington.

Úrslitin í nótt:

Orlando 95-84 New Orleans

Philadelphia 95-106 Indiana

Atlanta 80-105 Toronto

Detroit 100-91 Chicago

New York 87-111 Miami

Minnesota 111-109 Phoenix

Washington 89-127 Cleveland

Dallas 111-100 Houston

Milwaukee 89-81 Denver

Utah 92-76 Portland

Sacramento 109-101 Boston

Golden State 110-99 San Antonio

LA Lakers 105-114 Brooklyn

Frábær sending frá Stephen Curry Kyrie Irving vann sitt hvað fyrir sér í sportinu DeMarcus Cousins með tröllatroðslu gegn Boston
NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×