Menning

Hefur árangurslaust reynt að gefa rektor málverk af píku

Birgir Olgeirsson skrifar
Stefanía Pálsdóttir með verkið sem hún málið sem mótvægi við öllum listaverkunum af berrössuðum körlum í Háskóla Íslands.
Stefanía Pálsdóttir með verkið sem hún málið sem mótvægi við öllum listaverkunum af berrössuðum körlum í Háskóla Íslands. Vísir/GVA
Heimspekineminn Stefanía Pálsdóttir hefur árangurslaust reynt að afhenda rektor Háskóla Íslands málverk af píku undanfarnar vikur. Stefanía hafði í fyrstu ætlað sér að skrifa grein í Stúdentablaðið til að vekja athygli á fjölda listaverka af berrössuðum karlmönnum í Háskóla Íslands, og þar af leiðandi typpum, og hversu lítið fer fyrir nöktum kvenmönnum.

„Ég ætlaði fyrst að skrifa greinina fallus á campus en síðan langaði mig svo mikið að mála mynd af píku og gefa þeim. Þannig að planið breyttist aðeins og ég málaði mynd og ætlaði að afhenda rektor en það gekk ekki. Við höfum reynt að fara með verkið til þeirra í svolítinn tíma núna. Ég reyndi fyrst í janúar,“ segir Stefanía í samtali við Vísi um málið.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Vísir/Anton Brink.
Greint var fyrst frá málinu í Stúdentablaðinu en þar sagði Stefanía frá þeirri stundu þegar hún mætti með verkið á skrifstofu rektors en þar virtust skrifstofudömurnar fara hjá sér að sögn Stefaníu. Hún sagði Kristínu Ingólfsdóttur rektor hafa séð verkið og þakkað henni fyrir að hugsa hlýlega til skólans. Kristín greindi Stefaníu síðan frá því að hún þyrfti að drífa sig á fund en tók ekki við gjöfinni og hefur ekki enn veitt gjöfinni viðtöku rúmum tveimur mánuðum síðar.

Ekki náðist í Kristínu við vinnslu þessarar fréttar en samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu rektors þá hefur verið mikið annríki hjá rektor síðastliðnar vikur og því ekki tekist að afgreiða málið.

Stefanía segist hissa á því að fólk fari hjá sér þegar það sér verkið hennar og bendir á að rúmlega helmingur landsmanna er með píku. „Við erum öll með kynfæri, hversu mikla blygðunarkennd er hægt að hafa?,“ segir Stefanía sem ætlar halda áfram að reyna að gefa Háskóla Íslands þessa gjöf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×