Körfubolti

Michael Jordan er orðinn milljarðamæringur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michael Jordan á fyrir nóg af salti í grautinn.
Michael Jordan á fyrir nóg af salti í grautinn. vísir/getty
Michael Jordan er formlega orðinn milljarðamæringur, en hann er á 29. lista Forbes-tímaritsins yfir milljarðamæringa heimsins í dag.

Jordan er langt frá efsta sætinu, en samkvæmt Forbes-listanum er hann í 1.741 sæti. Hann er metinn á sléttan milljarð dala eða 133 milljarða króna.

Talið er að Jordan græði 100 milljónir dala árlega á fatalínu sinni Nike Air Jordan þó viðskiptastjóri hans hafi aldrei viðurkennt það. „Við tjáum okkur ekki um þessar ágiskanir Forbes,“ segir Estee Portnoy, sem sér um fjármál Jordans, við ESPN.

Jordan keypti 80 prósent hlut í NBA-liðinu Charlotte Bobcats árið 2010 sem þá var metið á 275 milljónir dala. Hann á nú 89 prósent í liðinu sem hefur breytt nafninu aftur í Charlotte Hornets. Það er í dag metið á 700 milljónir dala.

Michael Jordan er langt frá því að vera ríkasti eigandi íþróttaliðs í heiminum í dag. Sá ríkasti er Steve Ballmer, fyrrverandi framkvæmdastjóri Microsoft, en hann á Los Angeles Clippers. Hann er metinn á 21,5 milljarð dala og er 35. ríkasti maður heims.

Gamall félagi hans úr Microsoft, Paul Allen, sem á NFL-liðið Seattle Seahawks og NBA-liðið Portland Trail Blazers, er metinn á 17,5 milljarða dala og er 51. ríkasti maður heims. Þriðji ríkasti liðseigandinn er Phil Anshutz. Hann á NHL-liðið Los Angeles Kings og MLS-liðin LA Galaxy og Houston Dynamo. HAnn er metinn á 11,8 milljarði dala.

Í frétt ESPN má sjá aðra forríka menn sem eiga íþróttalið en þar koma fyrir ríkisbubbar á borð við Roman Abramocih og Stan Kroenke.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×