LeBron James sló stoðsendingametið í sögu Cleveland Cavaliers þegar Cavs bar sigurorð af Dallas Mavericks í nótt, 127-94.
James gaf stoðsendingu númer 4207 þegar hann sendi boltann á James Jones sem setti niður þrist þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af 2. leikhluta. James komst þar með upp fyrir Mark Price á stoðsendingalistanum hjá Cleveland.
Price spilaði í níu ár með Cleveland en á þeim tíma komst liðið einu sinni í úrslit Austurdeildarinnar, árið 1992, þegar það beið lægri hlut fyrir Michael Jordan og félögum í Chicago Bulls. Price er í dag aðstoðarþjálfari hjá Charlotte Hornets.
James á nú metið yfir flest stig skoruð, flestar stoðsendingar og flesta stolna bolta í sögu Cleveland. Aðeins sjö aðrir leikmenn hafa afrekað slíkt hið sama.
Metið yfir flest stig, stoðsendingar og stolnir boltar í sögu eins félags:
Michael Jordan - Chicago Bulls
Kevin Garnett - Minnesota Timberwolves
Reggie Miller - Indiana Pacers
Gary Payton - Seattle Supersonics
Randy Smith - LA Clippers
Isiah Thomas - Detroit Pistons
Dwayne Wade - Miami Heat
Körfubolti