Ég var enn reiðari yfir því hvað ég var lélegur í því að brytja þessi skrímsli niður.
Í hvert sinn sem maður deyr, og það gerist mjög oft, líða rúmlega þrjátíu sekúndur á meðan tölvan er að hugsa. Það er fullmikið og gerir ekki mikið til að hjálpa manni með skapið. Það sem verra er, þegar þú mætir aftur til borgarinnar Yharnam, eftir að þú deyrð, þá eru öll þau skrímsli sem höfðu verið drepin einnig risin aftur upp frá dauðum.
Framleiðendur Bloodborne, From Software, hafa gert þetta áður. Dark Souls leikirnir þykja meistaraverk, en þeir eru gífurlega erfiðir og spilarar eru hvattir til að deila upplýsingum og hjálpa hvorum öðrum í gegnum leikinn.
Eftir að ég hafði lesið mér til og jafnað mig í skapinu settist ég aftur niður fyrir framan sjónvarpið. Að þessu sinni tók á móti mér allt annar leikur og ég var fljótlega farinn að sætta mig við og jafnvel fagna því að deyja. Þegar skapið jafnaðist varð Bloodborne fljótt stórskemmtilegur leikur.
Þannig manar Bloodborne þig til þess að fara varlega áfram, en á sama tíma er erfitt að standast að drífa sig ekki til að komast fljótt á sama stað aftur. Þetta er ákveðinn vítahringur.
Graffík leiksins er furðulega léleg miðað við að hann er eingöngu til á PS4 og minnir á PS3 leiki. Það er margt í leiknum sem lítur mjög vel út, en á heildina litið er hann bara „mehh“. Spilunin er, eins og áður hefur komið fram, skemmtileg og krefjandi.
Til þess að taka saman, þá er Bloodborne mjög góður leikur, falli spilarar ekki í sömu reiðiholu og ég. Þeir sem hafa spilað Dark Souls leikina ættu að kannast við leikinn og verða líklega ekki fyrir vonbrigðum.