Körfubolti

Njarðvíkingar í nákvæmlega sömu stöðu og í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Vísir/Stefán
Njarðvíkingar sækja heima Íslands- og deildarmeistara KR taka í kvöld í fimmta leik liðanna í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta en í boði er sæti í lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.

Njarðvíkingar jöfnuðu einvígið með frábærum sextán stiga sigri í síðasta leik liðanna í Ljónagryfjunni en þurfa að gera það, sem þeim hefur ekki tekist í úrslitakeppninni í ár, ætli þeir að komast í lokaúrslitin.

Njarðvíkurliðið hefur nefnilega tapað öllum fjórum útileikjum sínum til þessa í úrslitakeppninni þar af leikjunum tveimur í DHL-höllinni með samtals 25 stigum (79-62 og 83-75).

Njarðvíkingar búa hinsvegar að reynslu síðasta tímabils þegar þeir voru í nákvæmlega sömu stöðu og í kvöld eða í oddaleik í undanúrslitum á útivelli á móti ríkjandi Íslandsmeisturum.

Njarðvíkurliðið tapaði þá 120-95 á móti Grindavík í Röstinni í Grindavík eftir að hafa tapað fyrsta leikhlutanum 38-19.

Sjö leikmenn Njarðvíkurliðsins í dag tóku þátt í leiknum fyrir ári síðan en það eru þeir Ragnar Helgi Friðriksson, Ágúst Orrason, Ólafur Helgi Jónsson, Magnús Már Traustason, Maciej Stanislav Baginski, Logi Gunnarsson og Hjörtur Hrafn Einarsson.

Logi skoraði 23 stig í leiknum og hitti meðal annars úr 5 af 7 þriggja stiga körfum sínum en stigahæstur var Elvar Már Friðriksson með 26 stig. Elvar Már stundar nám við LIU-háskóla í Brooklyn í vetur.

Leikur KR og Njarðvíkur hefst klukkan 19.15 í DHL-höllinni í Frostaskjóli en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×