Matur

Humarpizza með klettasalati og geitaostapizza með aspas

Eva Laufey Hermannsdóttir skrifar

Samverustundir með fjölskyldu minni og vinum skipta mig miklu máli. Ég nýt þess að fá góða gesti í mat á sumrin og hvað þá ef við getum setið úti á palli og spjallað fram eftir kvöldi.

Það sem nýtur mikilla vinsælda í mínu eldhúsi á sumrin er pizza. Einföld, ítölsk pizza með góðu áleggi.

Það góða við pizzur er að þær eru fjölbreyttar. Mér finnst gaman að bera fram mismunandi pizzur og það er hægt að prófa sig áfram.

Hér er uppskrift úr síðasta þætti Matargleði Evu, en þættirnir eru á dagskrá Stöðvar 2 á fimmtudagskvöldum.



Ítalskur pizzabotn

240 ml volgt vatn (mikilvægt að vatnið sé volgt)

2 ½ tsk þurrger

1 msk hunang

2 tsk salt

2 msk olía

400 – 450 g hveiti (gæti þurft meira en minna)

Aðferð:

Blandið volgu vatni, geri og hunangi saman í skál. Leggið viskastykki yfir skálina og leyfið gerinu að leysast upp í rólegheitum, eða í 7-10 mínútur.

Um leið og það byrjar að freyða í skálinni þá er gerblandan tilbúin. Hellið gerblöndunni í hrærivélaskál og bætið öllum hráefnum saman við, það er góð regla að bæta hveitinu smám saman við.

Látið hnoðast í vélinni í 6 – 10 mínútur eða þar til deigið er orðið í laginu eins og kúla, einnig á það ekki að vera klístrað. Setjið viskastykki yfir hrærivélaskálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund eða þar til þar hefur tvöfaldast að stærð.



Hvítlauksolía

3 dl ólífuolía

5 hvítlauksrif

1 tsk gróft salt

Aðferð:

Pressið hvítlauk og blandið honum saman við saltið, hellið olíunni og setjið hvítlaukinn í krukku. Lokið krukkunni og hristið vel saman.



Pizzasósa

1 msk ólífuolía

1 laukur, grófsaxaður

2 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir

500 ml tómata passata

Handfylli af ferskri, smátt saxaðri basilíku

Salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

Hitið laukinn í olíunni þar til hann mýkist og verður glær. Bætið hvítlauknum, tómatapassata, basilíku og salti og pipar saman við og leyfið sósunni að malla í  nokkrar mínútur.



Humarpizza

Hvítlauksolía, magn eftir smekk

300 g skelflettur humar, skolaður og þerraður

Kirsuberjatómatar, skornir í tvennt

1 kúla mozzarella ostur

Salt og nýmalaður pipar

Klettasalat, magn eftir smekk

Parmesan ostur , magn eftir smekk

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C. Fletjið deigið út og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Smyrjið deigið með hvítlauks- og raðið humrinum og tómötunum ofan á.

Kryddið með salti og pipar og stráið ostinum yfir. Bakið í 12 – 18 mínútur eða þar pizzan er orðin gullinbrún. Þegar pizzan er komin út úr ofninum er klettasalati bætt ofan á hana og parmesan osti sáldrað yfir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×