Margir vita að jóga er góð andleg heilsurækt en ekki allir sem vita að það er kröftug líkamsrækt sem getur bætt árangur í íþróttum. Ég heimsótti Sólveigu Þórarinsdóttur jógakennara, en hún opnaði jógastöðina Sólir á dögunum í gömlu fiskvinnsluhúsi á Grandanum og er hennar slagorð að allir geti fundið jóga við sitt hæfi.
Stöðin býður upp á fjölbreytta töflu með yfir 30 opna tíma á viku ásamt hugleiðslutímum og reglulegum námskeiðum. Heitt jóga verður í fyrirrúmi en þar verða einnig ýmsar nýjungar eins og pop up jóga á laugardögum og sérsniðnir tímar fyrir íþróttafólk. Þar verður einnig jóga fyrir hlaupara og kíktum við í einn slíkan tíma í vikunni og var það bráðskemmtileg reynsla og kærkomin tilbreyting frá hlaupunum.
