Læknirinn Paolo Macchiarini þróaði aðferðina sem fellst í því að skipta út barka fólks með gervibarka úr plasti. Stofnfrumur eiga svo að sjá til þess að vefur myndist utan um plastbarkann og geri honum þannig kleift að virka eðlilega. Sá fyrsti sem gekkst undir hnífinn hjá Macchirini var Andemariam Beyene.

Uppdrag granskning veit af átta aðilum sem gengið hafa í gegnum barkaígræðsluna. Af þeim fjórir látnir. Fjallað var um málið í kvöldfréttum RÚV.
SVT sagði frá því í gær að andlát Andemariam Beyene væri nú til rannsóknar hjá saksóknara í Svíþjóð. Hann lést eftir að hafa farið í gegnum aðgerð Macchiarini og fengið barkaígræðslu. Andemariam var frá Erítreu og stundaði nám í jarðeðlisfræði hér á landi þegar hann greindist með krabbamein.
Aðgerðin var sögð vel heppnuð og notuð til að gera grein í læknatímaritinu Lancet. Skurðlæknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson eru meðhöfundar greinar um aðgerðina og Tómas tók þátt í framkvæmd hennar þar sem hann hafði áður framkvæmt aðgerð á Andemariam hér á landi.

Í fyrra kom þó í ljós að Macchiarini hafði ekki sótt um leyfi hjá siðanefnd lækna í Svíþjóð. Í kjölfar þess var hann kærður. Einnig kom í ljós að atriði í greininni hafi ekki samræmst sjúkraskrám Andermariam. Karolinska sjúkrahúsið fékk utanaðkomandi sérfræðing til að fara yfir málið. Hann komst að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hefði falsað niðurstöður aðgerða sinna í nokkrum greinum.
Tómas Guðbjartsson sagðist í samtali við Vísi á ellefta tímanum í kvöld ekki vilja tjá sig um málið að svo stöddu.