Menning

Páll Óskar hættir við tónleika í Gamla bíói vegna hávaðatakmarkana

Birgir Olgeirsson skrifar
Gamla bíó stendur við Ingólfsstræti í Reykjavík.
Gamla bíó stendur við Ingólfsstræti í Reykjavík. Vísir
Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson hefur afbókað tónleika sína í Gamla bíói vegna þess að ekki fékkst leyfi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fyrir auknum hljóðstyrk á tónleikunum. Neitunin kom vegna ítrekaðra kvartana frá nágranna Gamla bíós, 101 hótel. Fulltrúar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur mældu hljóðstyrk á tónleikum í Gamla bíó og fór hann yfir leyfileg mörk.

Heilbrigðiseftirlitið fór fram á að aðstandendur Gamla bíós kæmu fyrir búnaði í hljóðkerfi tónleikastaðarins sem tryggðu að jafngildishljóðstig á staðnum færi ekki yfir leyfileg mörk, eða 95 desíbel.

Greint var fyrst frá málinu á vef Hringbrautar þar sem þessar takmarkanir á hljóðstyrk í Gamla bíói eru sagðar torvelda rekstri staðarins því tónlistarmenn sætti sig ekki við þennan hljóðstyrk.

Í reglugerð umhverfisráðuneytisins um hávaða á samkomustöðum og sérstökum viðburðum kemur fram jafngildishljóðstig á samkomustöðum, útiskemmtunum og öðrum stöðum þar sem fólk dvelur í skamman tíma megi vera 95 desíbel, hámarkshljóðstig 110 desíbel og hæsti hljóðtoppur 130 desíbel.

Hægt er að sækja um sérstaka heimild í starfsleyfi fyrir einstaka og sérstaklega hávaðasama viðburði á stöðum sem eru sérstaklega ætlaðir til tónleikahalds. Gegn slíkri heimild má jafngildishljóðstig fara í 102 desíbel, hámarkshljóðstig fara í 115 desíbel og hæsti hljóðtoppur 140 desíbel.

101 hótel.Vísir
Segir Gamla bíó þurfa að fara eftir reglugerðum

Guðvarður Gíslason er framkvæmdastjóri Gamla Bíós en Guðný Kristinsdóttir er hótelstjóri á 101.

Guðný segir aðstandendur 101 ánægða með starfsemi í Gamla bíói, húsið sé fallegt og Guðvarður sé búinn að gera fallega hluti þar innanhúss. „Hins vegar þarf hann að fara eftir reglugerðum eins og allir aðrir. Óperan var hérna við hliðina á okkur í tólf ár með starfsemi og það voru aldrei vandræði. Þá er svolítið skrýtið að hann ætli að ryðjast inn á okkar reit og ætlast til að við förum að breyta hjá okkur þannig að hann geti fengið að brjóta reglur,“ segir Guðný og vísar þar til þess að aðstandendur Gamla bíós hafi farið fram á við 101 að hótelið yrði einangrað betur svo hávaði frá tónleikastaðnum berist ekki inn á það.

Guðvarður Gíslason, framkvæmdastjóri Gamla bíós. Vísir/Anton Brink
Vill að hótelið einangri betur

Guðvarður Gíslason segir húsnæði 101 byggt utan í Gamla bíó með engri einangrun á milli og þess vegna berist svo mikill hávaði yfir á hótelið. „Hótelið á að gera sinn þátt í því að einangra sín herbergi ef þau ætla að geta leigt þau út. Það er okkar skoðun á málinu. Það fer of mikill hljóðstyrkur yfir, það er deginum ljósara. Það gerist af því það er ekki einangrað á milli húsana. Hitt húsið er byggt sem skrifstofuhúsnæði og prentsmiðja. Síðan taka aðilar ákvarðanir um að gera hótel og klára ekki sín mál. Tónleikahald er að skerðast hjá okkur og verðum við fyrir tekjutapi vegna þess,“ segir Guðvarður.

Á morgun eru fyrirhugaðir tónleikar í Gamla Bíói með hljómsveitunum Mammút og Samaris og á laugardag verður Kaleo þar með tónleika. Guðvarður segir þá sem hafa auglýst tónleika í húsinu ekki hafa hætt við en einhverjir hafi gert það sem voru með frátekna daga í húsinu en ekki búnir að auglýsa tónleika.

Hafa sent inn kvörtun

Þeirra á meðal er Páll Óskar sem ætlaði að halda tónleika í húsinu í tengslum við Hinsegin daga í Reykjavík. Hann hafi hætt við þegar ekki fékkst leyfi fyrir auknum hljóðstyrk á tónleikum í húsinu. „Við erum búin að senda inn kvörtun til heilbrigðisfulltrúans vegna þessa máls. Ef þeir endurskoða sín mál þá vonandi kemur hann inn.“

Gamla bíó samkomuhús í 90 ár

Líkt og kom fram áður þá benti hótelstjórinn Guðný á að Íslenska óperan hefði verið nágranni hótelsins í 12 ár og það hafi aldrei orðið vandamál. Guðvarður bendir hins vegar á að Gamla bíó hafi verið samkomuhús í 90 ár. „Það er búið að sýna hérna Litlu hryllingsbúðina og Hárið og fullt af miðnætursýningum og það er búnir að vera rokktónleikar í Gamla bíói í mörg, mörg ár og hefur bara alltaf verið. Það er ekki breytt starfsemi á þeirri forsendu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×