Sautjánda umferð Pepsi-deildar kvenna fór fram í heild sinni í dag.
Breiðablik tryggði sér sinn 16. Íslandsmeistaratitil með 1-2 sigri á Þór/KA fyrir norðan eins og fjallað var um á Vísi.
Helstu keppinautar Blikastúlkna um Íslandsmeistaratitilinn, Stjarnan, unnu 0-2 sigur á botnliði Þróttar.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Francielle Manoel Alberto skoruðu mörkin í sitt hvorum hálfleiknum.
Afturelding féll úr deildinni eftir 0-1 tap fyrir Fylki í Mosfellsbænum.
Hin 17 ára gamla Jasmín Erla Ingadóttir gerði eina mark leiksins á 16. mínútu. Jasmín gerði fimm mörk í síðasta leik Fylkis (6-0 sigri á Þrótti) og er því komin með sex mörk í síðustu tveimur leikjum.
Selfoss lyfti sér upp í 3. sætið með stórsigri, 1-7, á KR á útivelli.
Dagný Brynjarsdóttir, Guðmunda Brynja Óladóttir og Donna Kay Henry gerðu tvö mörk hver og Erna Guðjónsdóttir eitt.
Shakira Duncan gerði mark KR en hún kom Vesturbæjarliðinu yfir á 22. mínútu. KR er í 8. sæti og heldur sæti sínu í deildinni að ári.
Þá gerðu ÍBV og Valur 1-1 jafntefli á Hásteinsvelli.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar af úrslit.net.

