Menning

Dansað í dimmu

gyða lóa ólafsdóttir skrifar
Eyrún segir ákveðið frelsi felast í því að dansa í myrkri.
Eyrún segir ákveðið frelsi felast í því að dansa í myrkri. Fréttablaðið/Anton
„Þetta er mjög einfalt, það er nefnilega málið,“ segir Eyrún Arnadóttir.

Hún ásamt þeim Emma Sanderson, Emmy Winks og Rik McNair halda dansviðburðinn Dansað í dimmu. „Við komum saman í rými þar sem er hægt að gera tiltölulega mikið myrkur. Svo bara slökkvum við ljósin og dönsum í klukkutíma.“

Dansað í dimmu er gert að ástralskri fyrirmynd, No Lights No Lycra Perth og kynntist Eyrún því þegar hún var búsett í Ástralíu um stund en verður viðburðurinn nú í fyrsta sinn haldinn undir yfirskriftinni Dansað í dimmu.

Rúmt ár er síðan fyrsti viðburðurinn var haldinn og segir Eyrún talsverða aðsókn hafa verið í dansinn, þegar mest lét voru 40 manns sem mættu „Það var svolítið mikið,“ segir hún hlæjandi og bætir við að venjulega séu þau í kringum tuttugu talsins.

„Við höfum fengið fólk til að búa til playlista eða mix. Kira Kira gerir playlistann núna og svo hefur fólk út í bæ haft samband og fengið að gera playlista og nokkrir plötusnúðar líka,“ en Eyrún segir tónlistina fjölbreytta en reynt sé að höfða til allra.

Hún segir ákveðið frelsi fólgið í því að dansa í almyrkvuðu rými og nauðsynlegt sé að skilja egóið eftir fyrir utan. „Þetta er bara klukkutími sem þú átt með sjálfum þér og dansar án þess að fólk horfi á þig og það er mjög frelsandi.“

Eyrún segir þau vinina hafa ákveðið að láta slag standa og starta myrkradansinum hér á Íslandi aðallega fyrir sjálfan sig. „Okkur finnst rosalega gaman að dansa og ákvaðum að prófa, bara fyrir okkur og buðum fólki að koma.“

Dansað í dimmu hefst klukkan 19.00 í kvöld á Dansverkstæðinu, Skúlagötu 30. Þátttökugjald eru 1.000 krónur og enginn posi verður á staðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×