Menning

Ljóð bæta við og fylla myndina

Magnús Guðmundsson skrifar
Óskar Árni Óskarsson ljóðskáld fær sér kaffibolla á Kjarvalsstöðum við Klambratúnið.
Óskar Árni Óskarsson ljóðskáld fær sér kaffibolla á Kjarvalsstöðum við Klambratúnið. Visir/Pjetur
„Ég hef verið á rölti um Reykjavík í sextíu og fjögur ár. Þannig að það má hiklaust segja það að ljóðin mín séu samofin inn í þessa borg þar sem ég tíni þau upp svona hér og þar en annað verður bara til við skrifborðið eins og gengur. Margt er svona fundin ljóð, þar sem ég sé eitthvað eða heyri samræður í strætó eða eitthvað slíkt á mínu rölti um borgina og það kveikir oft eitthvað,“ segir skáldið Óskar Árni Óskarsson sem nýverið sendi frá sér ljóðabókina Blýengillinn. Hér er á ferðinni þrettánda ljóðabók Óskars Árna en að auki liggja eftir hann átta smáprósar og fjöldi þýðingarverka, þar á meðal á japönsku ljóðskáldunum Kobayashi Issa og Matsuo Basho, auk smásagna hins ameríska Raymonds Carver.

Knappur í formi

Óskar Árni er gjarnan nefndur meistari smáprósans og hvunndagsins í íslenskum bókmenntum en hann segir að ljóðin og smáprósarnir í Blýenglinum séu frá síðustu fjórum árum. „Þannig að það er ekkert meginþema í bókinni en svo eru myndljóðin þarna aftast en hluti af þeim hefur birst áður. Myndljóðin eru gerð á Silverreed-ritvél og birt þannig að letrið á blaðinu er birt eins og það kemur úr ritvélinni en það er engin leið lengur að fá borða í hana þannig að þetta er endanlegt. Það er svolítil kúnst að gera þetta á venjulega ritvél og ég hef alltaf haft áhuga á myndlist svo það tengist eitthvað þarna. Það er svo mikill skyldleiki á milli ljóðsins og myndlistarinnar og reyndar tónlistarinnar líka ef út í það er farið. Þetta hefur allt áhrif hvert á annað og eru allt hughrif.“

Allan sinn skáldaferil hefur Óskar Árni verið knappur í formi, hvort sem er í ljóði eða prósa, og hin knöppu form hafa óneitanlega togað sterkt í hann. „Jú, það hefur alltaf verið þannig og í þessari bók eru til að mynda einhendur, ljóð sem eru bara ein lína hvert ljóð, og svo eru þarna nokkrar hækur og lengri prósar. Ég held að það sem hafi gert það að verkum að ég leita í þessi knöppu form hafi upprunalega verið að ég féll fyrir einhverri bók á ensku með þýðingum á japönskum hækum. Líklega var það Kobayashi Issa og mér fannst bara eins og hann væri að yrkja í gegnum mig en hann var reyndar búinn að vera dauður í einhver 200 ár,“ segir Óskar Árni og skemmtir sér yfir þessum andlega skyldleika við japanska skáldið.

Visir/Pjetur
Í heimi skálda og bóka

Eitt af því sem einkennir verk Óskars Árna er að þau dvelja oft í veröld bóka og skálda. Í Blýengli bregður til að mynda fyrir Vilborgu Dagbjartsdóttur, Samuel Beckett, Geirlaugi Magnússyni, Degi Sigurðarsyni, Jóni Halli og Russel Edson og efalítið fleiri ef vel er að gáð. „Það má víst alveg segja það að ég dvelji talsvert í heimi bókarinnar enda er ég búinn að vera bókavörður í 40 ár og í hlutastarfi síðustu tvo áratugina eða svo,“ segir Óskar Árni sposkur. „En svo er það bara vinskapur við önnur skáld. Þetta er líka ákveðin samræða við vini mína og svo bara lestur til þess að fá innblástur. Það koma oft hugmyndir þegar maður er að lesa aðra höfunda þótt maður finni ekki endilega til skyldleika við þá eða eitthvað slíkt.“

Aðspurður hvað Óskar Árni telji að hafi mótað hann hvað mest sem skáld bendir hann á að hann hafi í raun byrjað seint. „Ég sendi fyrstu bókina frá mér 1986 og þá er ég þrjátíu og sex ára gamall. Þá var ég náttúrulega búinn að lesa heilmikið, lá í atómskáldunum en fyrstu höfundarnir sem ég las voru nú nokkuð rökréttir. Fyrst voru það Davíð og Tómas – Reykjavíkurskáldið og svo Örn Arnarson frændi minn en svo færði ég mig smátt og smátt yfir í módernismann. Þetta hefur eflaust verið einhver grunnur. Málið með þessi borgarskáld er að ég lít svo á að ljóð og önnur verk sem fjalla um ákveðið umhverfi verði hluti af borgarmyndinni. Ef þú hefur lesið texta um ákveðinn stað þá bætir það við og fyllir myndina af þeim stað sem þú ert á hverju sinni.“





Hekluferð og Geirlaugur

En ljóð og skáldskapur Óskars Árna hefur líka oft leitað út fyrir borgarmörkin. Í Blýengli fer þó minna fyrir þeim yrkisefnum en víða en smáprósinn Hekluferðin segir þó einkar skemmtilega frá tilraun skáldsins til þess að leggja land undir fót út fyrir borgarmörkin. „Já, þetta er reyndar sönn saga aldrei þessu vant. Ég lenti í þessu að ætla að fara í Hekluferð að ganga í fótspor Bjarna og Eggerts. En hafði farið dagavillt hjá Ferðafélaginu því ferðin hafði verið farin daginn áður. Mér var þó boðið að skella mér í fjöruferð á Seltjarnarnesið en það leist mér ekkert á. Það voru því dálítið þung sporin heim. Ég hef þó skrifað talsvert, bæði ljóð og prósa, þar sem sögusviðið er úti á landi.“

Óskar Árni tengist reyndar norður á Sauðárkrók í gegnum sinn vinahóp en þó einkum Geirlaug Magnússon sem þar bjó.

„Í mínum vinahópi var Gyrðir, Sigurlaugur Elíasson og Geirlaugur – þó að skáldskapur minn hafi aldrei verið eins og skáldskapur Geirlaugs þá hafði hann áhrif á mig. Við vorum svona í hóp, Norðanskáldin vorum við kölluð þó svo ég hafi verið að sunnan. Geirlaugur var svo víðlesinn og hann var alltaf að miðla til okkar útlendum ljóðskáldum, alltaf að stækka heiminn, enda átti hann mikið safn af bókum. Það má eflaust segja að hann hafi mótað okkur talsvert en hann hafði líka svo hvetjandi áhrif. Ég fór til að mynda með annað ljóðahandrit mitt til Geirlaugs og hann var nokkuð ánægður með það og í framhaldinu er það svo gefið út á Sauðárkróki þar sem Sigurlaugur Elíasson býr. Þetta reyndist mér dýrmætt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.