Viðskipti innlent

Volkswagen-skandallinn: 3.647 bílar hér á landi með EA189 vélina

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Málið þykir hið neyðarlegasta fyrir Volkswagen.
Málið þykir hið neyðarlegasta fyrir Volkswagen. vísir/epa
3.647 bílar eru á Íslandi með dísilvélar af gerðinni EA189 en það eru vélarnar sem ræðir um í Volkswagen málinu svokallaða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Heklu, umboðsaðila Volskwagen á Íslandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Volkswagen er um að ræða 1.854 bíla af gerðinni Skoda, 1.129 fólksbíla frá Volkswagen og 348 atvinnubíla frá sama fyrirtæki. Þá eru hér 316 Audi-ar með vélina innanborðs.

Eins og fram hefur komið vinnur Volkswagen Group að því að leysa vandamál við tiltekinn hugbúnað sem notaður er í ákveðnum dísilvélum frá fyrirtækinu, nánar tiltekið af gerðinni EA 189. Rétt er að ítreka að öll ökutæki sem þetta snertir eru fullkomlega örugg til aksturs. Málið varðar eingöngu þær mengandi lofttegundir sem losaðar eru.

Volkswagen Group leggur allt kapp á að finna lausn á málinu og hefur kynnt aðgerðaráætlun sem felur í sér að Volkswagen og önnur merki samstæðunnar munu í október birta yfirvöldum tæknilegar lausnir og framkvæmd þeirra og leita samþykkis á þeim fyrir viðkomandi bílgerðir. Þegar þýsk yfirvöld hafa samþykkt tæknilegu lausnirnar munu þær verða útbúnar til innleiðingar innan alls EES svæðisins. Í kjölfarið verður haft samband við hvern og einn viðskiptavin sem málið snertir og hann upplýstur um hvernig hægt sé að bæta losunarbúnað bílsins.

Volkswagen Group hefur lýst yfir fullri ábyrgð á þeim tæknilegu lagfæringum sem grípa þarf til og þeim kostnaði sem af hlýst. Hekla hefur útbúið lista með spurningum og svörum sem liggja fyrir á þessari stundu en hann er hægt að nálgast með að smella hér.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×