„Við þurfum að fá hina hlið málsins,“ segir Lúðvík Bergvinsson sem hefur óskað eftir skriflegum rökstuðningi vegna uppsagnar umbjóðanda hans sem aðstoðarskólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.
Undir lok síðasta mánaðar barst Hafliða Páli Guðjónssyni bréf frá skólameistara FVA, Ágústu Elínu Ingþórsdóttur, þar sem tilkynnt var að honum hefði verið sagt upp störfum sem aðstoðarskólameistari skólans. Hann hafði fyrr um vorið verið ráðinn til að sinna því starfi eftir að hafa starfað við kennslu í FVA.
Kvaddi sér hljóðs á kennarastofunni
Skessuhorn fjallaði um mál Hafliða í gær þar sem kom fram að hann hefði kvatt sér hljóðs á kennarastofunni í síðustu viku þar sem hann tilkynnti samstarfsfólki sínu að honum hefði verið sagt upp störfum. Í gær barst honum svo annað bréf þar sem honum var tilkynnt að hann þyrfti ekki að vinna uppsagnarfrestinn og var gert að skila lyklunum og yfirgefa skólann.
„Mjög sérstakt“
Lúðvík segir að þegar rökstuðningur á uppsögn Hafliða liggur fyrir verði mótuð bótakrafa og menntamálaráðuneytinu gerð grein fyrir henni. „Það er mjög sérstakt að vera sagt upp án þess að fá útskýringar og það er líka regla með ríkisstarfsmenn að þeir eru oft áminntir áður en þeim er sagt upp.“
Ágústa Elín tók við stöðu skólameistara FVA um síðustu áramót og hafa ákvarðanir hennar valdið nokkurri óánægju innan skólans. Skessuhorn segir til að mynda frá því að sjö ræstingakonum við fjölbrautaskólann hefði verið sagt upp störfum snemma á liðnu vori og olli sú ákvörðun uppnámi og andmælum.
Í samtali við Skessuhorn í gær sagði Reynir Þór Eyvindsson, formaður skólanefndar FVA, að starfsandinn virtist ekki vera góður á vinnustaðnum. „Þarna eiga sér stað stjórnunarhætti sem hafa ekki verið fallnir til vinsælda.“
Ítrekaðar kvartanir til ráðuneytisins
Vísir ræddi við Reyni í dag sem segir kennara hjá FVA hafa sent menntamálaráðuneytinu kvörtun vegna þeirra aðstæðna sem eru uppi hjá skólanum en ráðuneytið hafi ákveðið að aðhafast ekki. Nú hafa kennararnir ákveðið að senda aðra kvörtun til ráðuneytisins en óánægja þeirra snýr aðallega að þeim niðurskurði sem ráðist hefur verið í við skólann.
Hann segir skólanefndina hafa haft áhyggjur af þessu máli í töluverðan tíma og að hún muni væntanlega senda ráðuneytinu yfirlýsingu í dag. Hann segir skólanefndina telja að illa hefði verið staðið að ráðningu skólameistarans um síðustu áramót og hefur nefndin í tvígang sent ráðuneytinu kvörtunarbréf en hvorugu þeirra hefur verið svarað.
Ekki náðist í Ágústu Elínu við vinnslu þessarar fréttar.
Innlent