Erkisögur Íslendingsins Guðmundur Andri Thorsson skrifar 5. október 2015 00:00 Ég var um daginn að blaða í ágætu greinasafni sem hafði að geyma uppgjör ýmissa félagsvísindamanna við Hrunið og oflætistímana þar á undan, þegar nýútskrifað fólk úr viðskiptadeildum háskólanna fór um heiminn og hélt að það væri afkomendur „víkinga“, og ætti því að æla á milli rétta á fínum veitingahúsum, sofna í helstu óperuhúsum heims, aldrei halda fundi og taka ákvarðanir um milljarðatugi króna án þess að ráðgast við nokkurn mann, allra síst sjálfan sig. Félagsvísindamennirnir töluðu í þessu sambandi um hugmyndafræði Íslendingasagnanna sem hefðu fyllt þessa krakka af þessum mikilmennskuórum. En þær eru ekkert svona. Hér er skyndikúrs í Íslendingasögunum handa komandi útrásarvíkingum (þetta er víst að bresta á aftur) og félagsvísindamönnum.Sögur um oflæti Íslendingasögurnar fjalla alls ekki um það hvað Íslendingar séu fullkomnir heldur hitt hversu ófullkomnir þeir séu. Þær enda til dæmis alltaf með ósigri (karl)hetjunnar; en það gerir þessar sögur í rauninni ekki að tragedíum því að allir eru dauðfegnir að losna við þessa ofstopamenn; meira að segja Egill Skallagrímsson sem af öllum mótherjum sínum ber má um síðir þola það óhetjulegasta ástand sem hugsast getur: að verða gamalmenni. Þetta eru erkisögur um Íslendinga. Þær greina frá ættardeilum, landnámi og héraðsuppbyggingu, mannvígum, ástum og örlögum, fólki sem stríðir við skapgerðarbresti og reynir að lifa með sæmd. Þær segja frá orðheppni og orðseinheppni og orðabölvun. Þær segja frá völdum, lagarefjum, kaupskap, misnotkun, hefndum, sáttum, vináttu, rógi, misskilningi, heigulskap, gæfuleysi og gjörvileik og já, hetjuskap en þó umfram allt: oflæti. Þar er fullt af alls konar fólki. Persónur eru þar samsettar og við sjáum þær í athöfn, þær eru leiddar fram í verkum sínum og tilsvörum, útliti, fasi og jafnvel játningum sem að vísu eru sveipaðar dul í flóknum vísum, eins og nútímaljóð. Íslendingasögur eru nútímaskáldsögur og við sjáum persónur þeirra daglega á götu. Eru þetta hetjubókmenntir? Þar koma stundum við sögu náungar – löngu horfnir þegar sögurnar eru skráðar – sem gerðust málaliðar (soldið eins og atvinnumenn í fótbolta) og stóðu í mannvígum erlendis og jafnvel hér heima líka, með hörmulegum afleiðingum. Eigum við að dást að þeim? Við skulum segja frekar að saga þeirra þykir þess verð að hún sé sögð.Ekki fegrun, heldur stækkun Sögurnar eru einhvers konar sambland af goðsögum og raunsæisbókmenntum. Íslendingasögurnar rekja með öðrum orðum af ískaldri nákvæmni og umtalsverðri kaldhæðni deilur og vandræði sem hljótast af stolti á villigötum. Þær segja sem sé frá oflæti. Þær segja frá fólki sem linnir ekki látum fyrr en það hefur tekist á hendur það sem því er ofviða; sem er eina skilgreiningin á Íslenska draumnum sem hægt er að aðhyllast. Siðvillt skáld og nýríkir afglapar, glúrin gamalmenni og spilltir höfðingjar eru áberandi: og konur sem hika ekki við að senda menn til mannvíga til að standa vörð um hefndarskyldu og sæmd eða vegna ástar á þeim sem þær láta drepa. Sumar sögur segja frá hálfgerðum afglöpum sem eru ófærir um að taka þátt í daglegu lífi fólks og samfélaginu vegna þess að þeir eru á valdi hugmynda sem ættaðar eru úr allt öðrum kringumstæðum, sem kannski voru aldrei til nema sem skáldskapur, donkíkótar. Þetta eru sögulegir menn, það tekur því að segja frá þeim en guð hjálpi þeim sem ætlar að taka þá sér til eftirbreytni. Grettir Ásmundarson er ein slík hetja, Þorgeir og Þormóður, Kormákur, Hallfreður vandræðaskáld, Egill skalli, Gunnlaugur ormstunga og Hrafn, Björn Hítdælakappi … Meira að segja títtnefndur Gunnar á Hlíðarenda sem nú er mikil tíska að álasa, en er alltaf að reyna að vera góður, spyr Kolskegg bróður sinn „hvort eg mun því óvaskari maður en aðrir menn sem mér þykir meira fyrir en öðrum mönnum að vega menn“. Og langar bara að kvænast mesta kvenkosti landsins og sitja í sæmd sinni. Það verður spennandi að sjá hvernig Njála verður sviðsett í Borgarleikhúsinu nú í vetur en sagan um Gunnar og Hallgerði er kannski ekki flókin. Kannski fjallar hún um það sama og allar íslenskar sögur sem vit er í: að fara að heiman og að koma heim. Þetta er sagan um knattspyrnumanninn sem kemur úr atvinnumennsku með áunna spennufíkn þaðan, og þyrfti að fara á reiðistjórnunarnámskeið – og fegurðardrottninguna sem hefur ógeð á karlmönnum eftir misnotkun og ofbeldi frá barnsaldri og vill komast burt héðan og inn í hetjuvíddina. Gunnar vill komast inn hingað og út úr hetjuvíddinni, gerast venjulegur búri. Þau mætast í gættinni á hetjuvíddinni og úr verður það versta sem gat gerst að mati Njáls: Girndarráð. Saga Gunnars og Hallgerðar er ekki saga sem bundin er við tiltekið samfélag eða samfélagsaðstæður heldur klassísk ástarsaga, harmsaga, þetta er ekki saga um hetjuskap heldur klúður og gagnkvæmt ofbeldi, andlegt og líkamlegt. Þessar sögur fjalla um að sitt sé hvað gæfa eða gjörvileiki. Þær fjalla um undarlegt ástand í undarlegu landi þar sem ekki er nein lögga, bara goðar, varla guðir nema til að spauga með, naumast þing nema árleg útihátíð á Þingvöllum þar sem menn keppast við að þylja upp lög. Stundum koma þar fyrir skrýtin orð eins og „slundasamlega“ og „mannfýla“ en engum er vorkunn að lesa þær fyrir það: bækur eru bara skemmtilegri þegar þar eru orð sem maður skilur ekki en getur fundið af keiminn uppí sér. Þessa sögur sækja frásagnir og frásagnarmót í hetjuljóð þar sem valkyrjur kjósa goðbornum hetjum örlög. Íslendingasögur eru erkisögur um Íslendinga. Þær geyma ekki fegrun á því fólki sem fjallað er um – heldur stækkun. Það gæti forðað okkur frá öðru Hruni að fara að lesa þær aftur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun
Ég var um daginn að blaða í ágætu greinasafni sem hafði að geyma uppgjör ýmissa félagsvísindamanna við Hrunið og oflætistímana þar á undan, þegar nýútskrifað fólk úr viðskiptadeildum háskólanna fór um heiminn og hélt að það væri afkomendur „víkinga“, og ætti því að æla á milli rétta á fínum veitingahúsum, sofna í helstu óperuhúsum heims, aldrei halda fundi og taka ákvarðanir um milljarðatugi króna án þess að ráðgast við nokkurn mann, allra síst sjálfan sig. Félagsvísindamennirnir töluðu í þessu sambandi um hugmyndafræði Íslendingasagnanna sem hefðu fyllt þessa krakka af þessum mikilmennskuórum. En þær eru ekkert svona. Hér er skyndikúrs í Íslendingasögunum handa komandi útrásarvíkingum (þetta er víst að bresta á aftur) og félagsvísindamönnum.Sögur um oflæti Íslendingasögurnar fjalla alls ekki um það hvað Íslendingar séu fullkomnir heldur hitt hversu ófullkomnir þeir séu. Þær enda til dæmis alltaf með ósigri (karl)hetjunnar; en það gerir þessar sögur í rauninni ekki að tragedíum því að allir eru dauðfegnir að losna við þessa ofstopamenn; meira að segja Egill Skallagrímsson sem af öllum mótherjum sínum ber má um síðir þola það óhetjulegasta ástand sem hugsast getur: að verða gamalmenni. Þetta eru erkisögur um Íslendinga. Þær greina frá ættardeilum, landnámi og héraðsuppbyggingu, mannvígum, ástum og örlögum, fólki sem stríðir við skapgerðarbresti og reynir að lifa með sæmd. Þær segja frá orðheppni og orðseinheppni og orðabölvun. Þær segja frá völdum, lagarefjum, kaupskap, misnotkun, hefndum, sáttum, vináttu, rógi, misskilningi, heigulskap, gæfuleysi og gjörvileik og já, hetjuskap en þó umfram allt: oflæti. Þar er fullt af alls konar fólki. Persónur eru þar samsettar og við sjáum þær í athöfn, þær eru leiddar fram í verkum sínum og tilsvörum, útliti, fasi og jafnvel játningum sem að vísu eru sveipaðar dul í flóknum vísum, eins og nútímaljóð. Íslendingasögur eru nútímaskáldsögur og við sjáum persónur þeirra daglega á götu. Eru þetta hetjubókmenntir? Þar koma stundum við sögu náungar – löngu horfnir þegar sögurnar eru skráðar – sem gerðust málaliðar (soldið eins og atvinnumenn í fótbolta) og stóðu í mannvígum erlendis og jafnvel hér heima líka, með hörmulegum afleiðingum. Eigum við að dást að þeim? Við skulum segja frekar að saga þeirra þykir þess verð að hún sé sögð.Ekki fegrun, heldur stækkun Sögurnar eru einhvers konar sambland af goðsögum og raunsæisbókmenntum. Íslendingasögurnar rekja með öðrum orðum af ískaldri nákvæmni og umtalsverðri kaldhæðni deilur og vandræði sem hljótast af stolti á villigötum. Þær segja sem sé frá oflæti. Þær segja frá fólki sem linnir ekki látum fyrr en það hefur tekist á hendur það sem því er ofviða; sem er eina skilgreiningin á Íslenska draumnum sem hægt er að aðhyllast. Siðvillt skáld og nýríkir afglapar, glúrin gamalmenni og spilltir höfðingjar eru áberandi: og konur sem hika ekki við að senda menn til mannvíga til að standa vörð um hefndarskyldu og sæmd eða vegna ástar á þeim sem þær láta drepa. Sumar sögur segja frá hálfgerðum afglöpum sem eru ófærir um að taka þátt í daglegu lífi fólks og samfélaginu vegna þess að þeir eru á valdi hugmynda sem ættaðar eru úr allt öðrum kringumstæðum, sem kannski voru aldrei til nema sem skáldskapur, donkíkótar. Þetta eru sögulegir menn, það tekur því að segja frá þeim en guð hjálpi þeim sem ætlar að taka þá sér til eftirbreytni. Grettir Ásmundarson er ein slík hetja, Þorgeir og Þormóður, Kormákur, Hallfreður vandræðaskáld, Egill skalli, Gunnlaugur ormstunga og Hrafn, Björn Hítdælakappi … Meira að segja títtnefndur Gunnar á Hlíðarenda sem nú er mikil tíska að álasa, en er alltaf að reyna að vera góður, spyr Kolskegg bróður sinn „hvort eg mun því óvaskari maður en aðrir menn sem mér þykir meira fyrir en öðrum mönnum að vega menn“. Og langar bara að kvænast mesta kvenkosti landsins og sitja í sæmd sinni. Það verður spennandi að sjá hvernig Njála verður sviðsett í Borgarleikhúsinu nú í vetur en sagan um Gunnar og Hallgerði er kannski ekki flókin. Kannski fjallar hún um það sama og allar íslenskar sögur sem vit er í: að fara að heiman og að koma heim. Þetta er sagan um knattspyrnumanninn sem kemur úr atvinnumennsku með áunna spennufíkn þaðan, og þyrfti að fara á reiðistjórnunarnámskeið – og fegurðardrottninguna sem hefur ógeð á karlmönnum eftir misnotkun og ofbeldi frá barnsaldri og vill komast burt héðan og inn í hetjuvíddina. Gunnar vill komast inn hingað og út úr hetjuvíddinni, gerast venjulegur búri. Þau mætast í gættinni á hetjuvíddinni og úr verður það versta sem gat gerst að mati Njáls: Girndarráð. Saga Gunnars og Hallgerðar er ekki saga sem bundin er við tiltekið samfélag eða samfélagsaðstæður heldur klassísk ástarsaga, harmsaga, þetta er ekki saga um hetjuskap heldur klúður og gagnkvæmt ofbeldi, andlegt og líkamlegt. Þessar sögur fjalla um að sitt sé hvað gæfa eða gjörvileiki. Þær fjalla um undarlegt ástand í undarlegu landi þar sem ekki er nein lögga, bara goðar, varla guðir nema til að spauga með, naumast þing nema árleg útihátíð á Þingvöllum þar sem menn keppast við að þylja upp lög. Stundum koma þar fyrir skrýtin orð eins og „slundasamlega“ og „mannfýla“ en engum er vorkunn að lesa þær fyrir það: bækur eru bara skemmtilegri þegar þar eru orð sem maður skilur ekki en getur fundið af keiminn uppí sér. Þessa sögur sækja frásagnir og frásagnarmót í hetjuljóð þar sem valkyrjur kjósa goðbornum hetjum örlög. Íslendingasögur eru erkisögur um Íslendinga. Þær geyma ekki fegrun á því fólki sem fjallað er um – heldur stækkun. Það gæti forðað okkur frá öðru Hruni að fara að lesa þær aftur.