Menning

Breytingar í loftinu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræði við Háskóla Íslands, er einn af frummælendum á málþinginu í dag.
Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræði við Háskóla Íslands, er einn af frummælendum á málþinginu í dag. Vísir/Vilhelm
„Það er verið að reyna að skoða hvað gæti verið í framtíðinni. Hvernig staðan er núna, og svo verið að reyna að rýna inn í framtíðina. Hvað getur orðið ofan á í þessum rafbókaheimi,“ segir Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingarfræði við Háskóla Íslands og einn frummælenda á málþinginu sem ber yfirskriftina Bókin í rafheimum – er ástæða til að óttast eða fagna?

Hann segir lítið af rafbókum gefið út á Íslandi og það stafi af því að markaðurinn sé viðkvæmur.

„Við höfum verið að fylgjast með án þess að fara kannski alla leið. Hefur ekki farið jafn langt hér heima eins og erlendis,“ segir hann og bætir við að margar spurningar vakni þegar útgáfa á rafbókum komi til tals. „Þetta eru allt flóknar spurningar í okkar litla bókmenntaheimi sem er mjög viðkvæmur vegna stærðar sinnar, eða smæðar öllu heldur.“

Þingið er samstarfsverkefni Rithöfundsambands Íslands, Félags íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkis, Landsbókasafns Íslands, Borgarbókasafns, Miðstöðvar íslenskra bókmennta og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO. Útvarpskonan Halla Oddný Magnúsdóttir mun stýra umræðunni og mun Gauti flytja fyrsta erindið þar sem hann fer yfir þróun íslenskrar rafbókaútgáfu og lýsir framtíðarsýn sinni á miðlun og sölu þeirra hér á landi. Einnig munu Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur, Egill Jóhannsson útgefandi, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður, Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir bókmenntafræðingur flytja erindi um ýmislegt sem tengist viðfangsefninu.

„Útgefendur margir segja að eftir mikinn vöxt erlendis hafi útgáfan staðnað í rafbókum, meira að segja dregist aðeins saman. Að menn vilji kannski frekar gömlu bækurnar og að það sé aftur komin eftirspurn eftir þeim. Aðrir segja að markaðurinn sé að minnka yfirleitt,“ segir Gauti sem meðal annars mun fjalla um ruðningsáhrif tæknilegra breytinga.

„Þær munu ná í gegn á endanum. Unga fólkið heldur á símanum alla daga og þegar það vill lesa einhverja fína bók þá vill það bara fá hana þangað. Það er óljóst hvað verður og þess vegna vildum við hittast og ræða það,“ segir Gauti en hagsmunaaðilar úr öllum áttum munu koma saman á þinginu, ræða saman og reyna að komast að einhvers konar niður­stöðu. „Það eru einhverjar breytingar í loftinu. Það verður allavega ekki allt eins það var, svo mikið er víst.“

Hann segir mikilvægt að ræða saman og leitast við að komast að einhverri niður­stöðu og reyna að bregðast við þessari þróun. „Eins og í músíkinni, menn spyrntu við fótum mjög lengi og þá tók tæknin yfir og það varð miklu meira af sjóræningjafjölföldunum af því að menn tókust ekki á við þetta strax.“

Að loknum flutningi erindanna verður efnt til pallborðsumræðna. „Það verða einnig pallborðsumræður eftir erindin þannig að menn geta spurt og spjallað. Ég held að við séum akkúrat á þeim stað í þessu ferli að við verðum að fara að skoða þessi mál því annars gerist það sem gerðist í tónlistinni að tæknin tekur yfir og menn sitja hugsanlega eftir með sárt ennið.“

Þingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, hefst klukkan 13.00 og eru allir velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×