Bíó og sjónvarp

Slær hugmyndir um kvikmyndir af borðinu

Samúel Karl Ólason skrifar
George R.R. Martin, höfundur A Song of Ice and Fire.
George R.R. Martin, höfundur A Song of Ice and Fire. Vísir/AFP
„Ég er að enn að skrifa Winds of Winter. David og Dan eru enn að taka upp sjöttu þáttaröð. HBO er enn á sjónvarpsmarkaðinum.“ Þetta skrifar George R.R. Martin, höfundur bókaseríunnar A Song of Ice and Fire, sem þættirnir Game of Thrones eru byggðir á.

Tilefni skrifanna eru orðrómar um framleiðslu kvikmynda úr söguheiminum og að hann og framleiðendur þáttanna hafi fengið ógrynni spurninga vegna þessa. Martin segir engar kvikmyndir í framleiðslu og að það standi ekki til að gera slíkt.

Hann segir hugmyndina um að enda þættina sem nú eru í sýningu á einni eða tveimur kvikmyndum hafa litið dagsins ljós fyrir nokkrum árum.

„Ég sagði þá að mér líkaði hugmyndin. Auðvitað líkaði mér sú hugmynd.“ Þá var framleiðsla þáttanna enn á sínum yngri árum og ekki mikið fjármagn til. „Á þeim tíma, í því samhengi, var hugmyndin um risa kvikmyndir með fjármagn á við Lord of The Rings mjög aðlaðandi.“

Martin segir hugmyndina ennþá vera aðlaðandi og að þetta væri frábær leið til að loka sögunni. Hins vegar sé engin kvikmynd í framleiðslu og ekki standi til að gera slíkt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×