Menning

Einn reyndasti menningarblaðamaður landsins blekktur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Friðrika Benónýsdóttir
Friðrika Benónýsdóttir
Rithöfundur bókarinnar Lausnin, Eva Magnúsdóttir, skrifar undir dulnefni samkvæmt skráningu bókarinnar í bókasafnskerfinu Gegni.

Slíkar upplýsingar er hins vegar ekki að finna á kápu bókarinnar né gaf kynningarfulltrúi Forlagsins Friðriku Benónýsdóttur, blaðamanni Fréttatímans, þær upplýsingar í té en viðtal við „Evu“ birtist í Fréttatímanum á föstudaginn.

Friðrika er einn reyndasti menningarblaðamaður landsins en hún var meðal annars menningarritstjóri Fréttablaðsins um árabil og hefur gagnrýnt bækur í bókmenntaþættinum Kiljunni.

Höfundurinn gefur ekkert upp um dulnefnið í umræddu viðtali og segir meðal annars, aðspurður hver hann sé:

„Ég er 26 ára núna, 27 bráðum. Foreldrar mínir kynntust á skemmtiferðaskipi á Miðjarðarhafinu og ári síðar fæddist ég. Pabbi er norskur og mamma íslensk, ég er uppalin hér og þar í Noregi, aðallega í Osló. Foreldrar mínir skildu, ég bjó áfram með mömmu í Noregi og Hollandi en hef verið mikið á Íslandi, alltaf átt vini á Íslandi og heimsótt þá og þeir mig.“

Bókarkápa Lausnarinnar.
Segist ekki hafa vitað að um dulnefni væri að ræða

Þá var jafnframt bent á það á bókmenntavefnum Druslubækur og doðrantar í gær að myndin af Evu sem birtist með viðtalinu í Fréttatímanum væri tekin af netinu. Árni Þór Árnason, kynningarfulltrúi Forlagsins, sendi Friðriku myndina af Evu.

Friðrika vildi ekki tjá sig um málið þegar Vísir leitaði eftir því en haft er eftir henni á vef DV að hún hafi farið í gegnum kynningarfulltrúa Forlagsins og ekki treyst öðru en að þeir væru að segja henni satt. Þá kvaðst hún aldrei hafa lent í öðru eins.

Kynningarfulltrúinn, Árni Þór, segist í samtali við Vísi ekki vita betur en að Eva Magnúsdóttir sé Eva Magnúsdóttir. Þá þvertekur hann fyrir að það sé hluti af kynningarherferð bókarinnar að hafa ekki upplýst Fréttatímann um að Eva Magnúsdóttir væri dulnefni. Hann hafi ekki vitað að svo væri.

„Það sem ég fékk til umráða var netfang og þær upplýsingar að höfundurinn myndi ekki koma til landsins. Það er „common practice“ að ég tala bara við höfunda í gegnum netföng“

Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi hjá Forlaginu, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að hann sé bundinn trúnaði við höfund og geti ekki tjáð sig um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×