Bergljót Arnalds hefur sent frá sér nýtt lag og frumsýnir það á Vísi í tilefni afmælisins. Lagið heitir „Ástarörin“ eða á ensku "The Arrow of Love" og fjallar um prakkarann Cupid og leikfangið hans ástarörina góðu.
Íslensk náttúra og lúpínubreiður prýða myndbandið og var m.a. notuð 'fjarfluga' eða dróni við tökurnar. Myndbandið er tekið rétt austan við Skógafoss þegar lúpínan stóð í sem mestum blóma í sumar. Breiðan nær frá ströndinni og nánast upp að jökli.
„Það var mjög gaman að vera við þessar tökur,“ segir Bergljót sem fagnar afmæli sínu í faðmi fjölskyldunnar hér heima.
„Dóttir mín 6 ára hvislaði að mér í morgun að hún ætlaði að gefa mér hjólaskauta í afmælisgjöf en hún megi ekki segja mér hvað hún ætli að gefa mér. Eins og gefur að skilja er ég mjög spennt að vita hvað er í pakkanum.“
Bergljót mun flytja lagið á tónleikum í Kaupmannahöfn annað kvöld en hún verður í dönsku höfuðborginni yfir helgina.
„Ég er mjög þakklát fyrir hvern afmælisdag. Hvert ár er gjöf hvernig sem viðrar. Ég hef misst tvo vini, langt um aldur fram. Það er gott að minna sig á hvað lífið er dýrmætt.“
Lífið