

Útlendingastofnun hefur í dag sótt um skólavist fyrir fimm börn í Reykjavík og vinnur nú að því að koma tólf börnum í Hafnarfirði í skóla.
Umboðsmaður barna lítur alvarlegum augum á vinnubrögð Útlendingastofnunar, sem hefur látið hjá líða að sækja um skólavist fyrir á annan tug barna hælisleitenda hér á landi.
Faðir þriggja albanskra barna, sem hingað til hafa ekki fengið skólavist í íslenskum grunnskólum, segir daginn í dag afar ánægjulegan, en í morgun byrjuðu börn hans loksins í skólanum. Yngsti sonur hans segir skemmtilegast að læra stærfræði og leika sér við aðra krakka.
Nú hafa öll börnin þrjú; Laura, Janie og Petrit fengið inngöngu í skóla. Systkinin hafa stöðu hælisleitenda hér á landi, en hafa verið búsett hér á landi frá því í júní.
Þau Laura fimmtán ára, Janie þrettán ára og Petrit níu ára komu til Íslands í byrjun júní. Þau spyrja foreldra sína daglega hvenær þau fái að fara í skóla. Útlendingastofnun sótti ekki um skólavist fyrir systkinin þrátt fyrir ítrekaðar áminningar foreldra barnanna, lögfræðinga og umboðsmanns barna.
Í ágúst og september sótti fordæmalaus fjöldi einstaklinga um hæli hér á landi.