Menning

Áleitinn, kraftmikill og jafnvel lágstemmdur djass

Félagarnir í Q56 ætla bæði að taka gamla standarda og spánýtt efni.
Félagarnir í Q56 ætla bæði að taka gamla standarda og spánýtt efni.
Kvartettinn Q56 kemur fram á djasskvöldi á Kexi Hosteli á Skúlagötu 28 í kvöld, þriðjudaginn 13. október. Þar ætlar hann að vera með áleitinn og kraftmikinn en líka jafnvel lágstemmdan djass, að sögn Kára Ibsen trommuleikara.

„Þannig að allir ættu að fá eitthvað við sitt hæfi, sem á annað borð fíla djass,“ segir hann og lofar að sígræn amerísk sönglög og spánýtt efni, ættað frá löndum beggja vegna Atlantshafsins, verði á boðstólum.

Auk Kára skipa kvartettinn þeir Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar, Steinar Sigurðarson á saxófón og Þorgrímur Jónsson á kontrabassa.

Kári segir kvartettinn hafa verið til allt frá aldamótum.

„Við Steinar höfum verið með allan tímann, aðrir hafa aðeins verið rokkandi, Þorgrímur fór til dæmis í nám erlendis á tímabili og aðrir hlupu í skarðið. En það verður enginn ríkur á að spila djass. Við gerum þetta mest ánægjunnar vegna. Það er ekki þannig að djassarar hittist þegar þeir eru orðnir blankir og ákveði að taka svosem eitt gigg til að bæta fjárhaginn.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.30 og aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.