Menning

Þá kom þessi magnaði óperuhljómur fram

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hjónin Julian Michael Hewlett kórstjóri og Kristín R. Sigurðardóttir söngkona.
Hjónin Julian Michael Hewlett kórstjóri og Kristín R. Sigurðardóttir söngkona. Fréttablaðið/GVA
Kvennasönghópurinn Boudoir og karlakórinn Mosfellsbræður hafa tekið höndum saman og myndað Óperukór Mosfellsbæjar.

„Við munum óhrædd takast á við spennandi verkefni úr óperuheiminum og fleiri geirum tónlistarinnar,“ segir Kristín R. Sigurðardóttir söngkona sem bæði tilheyrir Boudoir og hinum nýja óperukór.

Eiginmaður hennar, Julian M. Hewlett, er stofnandi og stjórnandi allra kóranna þriggja. Hann hefur starfað hér á landi í rúma tvo áratugi sem píanóleikari, tónlistarkennari, kórstjóri, organisti og tónskáld.

„Boudoir er kór með faglærðum konum og félagar í Mosfellsbræðrum hafa margir verið í námi og eru þjálfaðir í kórsöng, enda með gríðargóðar raddir. Þegar kórunum var steypt saman kom út þessi flotti, magnaði óperuhljómur,“ lýsir Kristín.

Félagar í nýja kórnum eru 35, þar af nokkrir sem standa utan hinna kóranna og enn er pláss fyrir fleiri að sögn Kristínar.  

Fyrstu formlegu tónleikar Óperukórs Mosfellsbæjar verða haldnir fyrir jólin. Þar verða meðal annars sungnir kórar úr Messíasi eftir Händel og jólakantata eftir kórstjórann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×