Ógnarjafnvægi nýrrar kynslóðar Bergur Ebbi skrifar 30. október 2015 07:00 Eitt af því sem skilgreindi kynslóðina sem ólst upp á tímum kalda stríðsins var kjarnorkuváin. Stórveldin stóðu í gagnkvæmum ögrunum og bæði bjuggu þau yfir kjarnorkuvopnum. Heimsbyggðin gat fylgst með enda voru nýir miðlar eins og sjónvarp notaðir sem áróðurstæki til að koma skilaboðum til fólks. Skilaboðin voru í stuttu máli: Verið hrædd því heimurinn gæti tortímst á hverri stundu. Þessi allsherjarhræðsla var þó ekki bara almennings. Að sjálfsögðu óttuðust þeir sem fóru með völd einnig kjarnorkusprengjuna. Ef annað stórveldið beitti sprengjunni hefði árásinni líklegast verið svarað af gagnaðilanum, sem hefði engu að tapa. Í því fólst tortíming beggja. Samkvæmt hefðbundinni leikjafræði gagnast engum að eiga frumkvæði í slíkri stöðu. Fræðimenn greindu ástandið sem „ógnarjafnvægi“. Það fékk kannski einhverja til að anda léttar en kannski var það aðgerðaleysi ógnarjafnvægisins sem hafði mest áhrif á kaldastríðsbörnin. Við lifum í dag á tímum nýrrar ógnar. Hún er ekki pólitísks eðlis, hún snýst í grunninn ekki um hagsmuni þjóða en hún á það sameiginlegt með ógn kalda stríðsins að hún er yfirvofandi og allt um lykjandi. Ógnin snýst um gagnaleka.Allt er í húfi Í dag vex heil kynslóð úr grasi hvers líf er skráð í rafræna gagnabanka. Einstaklingar þessarar kynslóðar hafa samviskusamlega skráð niður stóran hluta skoðana sinna, væntinga, gjörða og meininga á sjálfu sér og öðru fólki. Sérhver tölvupóstur, Facebook-samtal, WhatsApp-samtal, Twitter-einkaskilaboð. Snöpp. Hvernig klám fólk skoðar. Allt er þetta skráð og geymt í mis-miðlægum gagnabönkum og um meðferð þessara upplýsinga gilda margvísleg lög og þau eru dulkóðuð á mismunandi hátt. Sagan hefur þegar gefið vísbendingar um að allt sem er dulkóðað getur verið afdulkóðað og allt sem er skráð getur lekið út. Líklega mun tilvist þessara upplýsinga breyta hugmyndum okkar um einkalíf þegar fram líða stundir. Kannski mun sú gríðarlega sítenging, sem gögnin eru öll byggð á, einnig má út einstaklingshyggju og breyta hagsmunamati okkar til framtíðar. En hvað sem því líður þá mun heil kynslóð vaxa úr grasi meðvituð um tilvist fyrirbæris sem leggur alla framtíð þess að veði. Ef allar upplýsingar, til dæmis af Facebook, myndu leka út væri stór hluti vina-, viðskipta- og stjórnmálasambanda í uppnámi – svo ekki sé talað um hjónabönd. Þetta er stór fullyrðing en hún stenst skoðun. Á Facebook skrifar svo stór hluti mannkyns svo mikilvæga hluti um svo marga í einkaskilaboðum sín á milli að allsherjarleki væri eitthvað sem mætti alveg gefa nafn tortímingar. Ógnin felst í einu stóri vantrausti allra í garð allra. En hugum nú aftur að hugmyndinni um ógnarjafnvægi. Segjum sem svo að þú vaknaðir upp einn daginn og fengir þær fregnir að öll einkaskilaboð á Facebook, frá upphafi, væru öllum aðgengileg. Lítið mál væri að leita að upplýsingum úr því sem lekið hefði. Nóg væri að gefa skipunina Ctrl F og slá upp nöfnum. Hverju myndir þú byrja að tékka á? 1. Hvað, ef eitthvað, þú hefðir skrifað um aðra sem þeir mættu ekki sjá? Hvort þú hefðir eyðilagt starfsferilinn eða hjónabandið? 2. Hvað aðrir hefðu sagt um þig? Ég held að það sé eitthvað í þessari gagnkvæmu tortímingu sem býður upp á ógnarjafnvægi. Við töpum flest jafn miklu og við græðum (ef gróða skyldi kalla). Við erum flest sek um að hafa treyst einhverjum sem við þekkjum fyrir upplýsingum sem eiga ekki að fara lengra. En auðvitað er rangt að tala um sekt í þessu samhengi. Svona höfum við byggt upp líf okkar fram að þessu. Gagnalekar rjúfa þetta stóra samkomulag. Það hefur sýnt sig þegar minniháttar lekar verða. Fjölmiðlar (eða raunar fólk almennt) virða ekki þau lögmál sem giltu þegar upplýsingarnar urðu til. Lekinn býr til nýtt samkomulag. Ef það er hægt að skoða eitthvað þá verður það skoðað.Að skammast sín fyrir hræðsluna En vegna þess að erfitt er að koma auga á aðila sem myndi hagnast á allsherjar gagnaleka þá verður að segjast að hann er ekkert sérlega líklegur. Það fylgja því samt ónotaleg þyngsli að alast upp við ógnina. Ég held að sú ógn muni móta nýja kynslóð meira en flest annað. Það skiptir engu máli þótt fólk sé ekki meðvitað um smáatriðin. Þó að fólk skilji ekki tæknina eða hagsmunina. Sagan hefur sýnt að möguleikinn er til staðar. Auk þess lýtur ógn ekki alltaf lögmálum rökfræðinnar. Hún lúrir bara þarna. Sumir reyna að streitast á móti. Sumir byggðu sér kjarnorkubyrgi í kalda stríðinu og fylltu það af niðursuðudósum. Sumir munu breyta hegðun sinni í dag til að búa sig undir gagnalekann en það skiptir máli hvernig það er gert. Stærsti munurinn á þessari ógn og ógn kalda stríðsins er að við skömmumst okkar fyrir að hræðast gagnaleka. Við hjúfrum okkur ekki saman eins og undan kjarnorkusprengjunni heldur reynum við að halda stolti. Viðkvæðið er að enginn eigi að hafa neitt að fela. Með því erum við að dæma okkur sek en sökin er ekki meiri en sú að við erum bara að gera það sem fólk hefur alltaf gert. Þetta er eitthvað sem ný kynslóð mun komast yfir en sú sem ég tilheyri mun halda áfram að eiga í vandræðum með. Fyrsta skrefið til að mæta ógninni er að skilja þá hagsmuni sem gætu legið að baki gagnalekum en það er efni í aðra skoðun sem ekki er rúm fyrir hér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Eitt af því sem skilgreindi kynslóðina sem ólst upp á tímum kalda stríðsins var kjarnorkuváin. Stórveldin stóðu í gagnkvæmum ögrunum og bæði bjuggu þau yfir kjarnorkuvopnum. Heimsbyggðin gat fylgst með enda voru nýir miðlar eins og sjónvarp notaðir sem áróðurstæki til að koma skilaboðum til fólks. Skilaboðin voru í stuttu máli: Verið hrædd því heimurinn gæti tortímst á hverri stundu. Þessi allsherjarhræðsla var þó ekki bara almennings. Að sjálfsögðu óttuðust þeir sem fóru með völd einnig kjarnorkusprengjuna. Ef annað stórveldið beitti sprengjunni hefði árásinni líklegast verið svarað af gagnaðilanum, sem hefði engu að tapa. Í því fólst tortíming beggja. Samkvæmt hefðbundinni leikjafræði gagnast engum að eiga frumkvæði í slíkri stöðu. Fræðimenn greindu ástandið sem „ógnarjafnvægi“. Það fékk kannski einhverja til að anda léttar en kannski var það aðgerðaleysi ógnarjafnvægisins sem hafði mest áhrif á kaldastríðsbörnin. Við lifum í dag á tímum nýrrar ógnar. Hún er ekki pólitísks eðlis, hún snýst í grunninn ekki um hagsmuni þjóða en hún á það sameiginlegt með ógn kalda stríðsins að hún er yfirvofandi og allt um lykjandi. Ógnin snýst um gagnaleka.Allt er í húfi Í dag vex heil kynslóð úr grasi hvers líf er skráð í rafræna gagnabanka. Einstaklingar þessarar kynslóðar hafa samviskusamlega skráð niður stóran hluta skoðana sinna, væntinga, gjörða og meininga á sjálfu sér og öðru fólki. Sérhver tölvupóstur, Facebook-samtal, WhatsApp-samtal, Twitter-einkaskilaboð. Snöpp. Hvernig klám fólk skoðar. Allt er þetta skráð og geymt í mis-miðlægum gagnabönkum og um meðferð þessara upplýsinga gilda margvísleg lög og þau eru dulkóðuð á mismunandi hátt. Sagan hefur þegar gefið vísbendingar um að allt sem er dulkóðað getur verið afdulkóðað og allt sem er skráð getur lekið út. Líklega mun tilvist þessara upplýsinga breyta hugmyndum okkar um einkalíf þegar fram líða stundir. Kannski mun sú gríðarlega sítenging, sem gögnin eru öll byggð á, einnig má út einstaklingshyggju og breyta hagsmunamati okkar til framtíðar. En hvað sem því líður þá mun heil kynslóð vaxa úr grasi meðvituð um tilvist fyrirbæris sem leggur alla framtíð þess að veði. Ef allar upplýsingar, til dæmis af Facebook, myndu leka út væri stór hluti vina-, viðskipta- og stjórnmálasambanda í uppnámi – svo ekki sé talað um hjónabönd. Þetta er stór fullyrðing en hún stenst skoðun. Á Facebook skrifar svo stór hluti mannkyns svo mikilvæga hluti um svo marga í einkaskilaboðum sín á milli að allsherjarleki væri eitthvað sem mætti alveg gefa nafn tortímingar. Ógnin felst í einu stóri vantrausti allra í garð allra. En hugum nú aftur að hugmyndinni um ógnarjafnvægi. Segjum sem svo að þú vaknaðir upp einn daginn og fengir þær fregnir að öll einkaskilaboð á Facebook, frá upphafi, væru öllum aðgengileg. Lítið mál væri að leita að upplýsingum úr því sem lekið hefði. Nóg væri að gefa skipunina Ctrl F og slá upp nöfnum. Hverju myndir þú byrja að tékka á? 1. Hvað, ef eitthvað, þú hefðir skrifað um aðra sem þeir mættu ekki sjá? Hvort þú hefðir eyðilagt starfsferilinn eða hjónabandið? 2. Hvað aðrir hefðu sagt um þig? Ég held að það sé eitthvað í þessari gagnkvæmu tortímingu sem býður upp á ógnarjafnvægi. Við töpum flest jafn miklu og við græðum (ef gróða skyldi kalla). Við erum flest sek um að hafa treyst einhverjum sem við þekkjum fyrir upplýsingum sem eiga ekki að fara lengra. En auðvitað er rangt að tala um sekt í þessu samhengi. Svona höfum við byggt upp líf okkar fram að þessu. Gagnalekar rjúfa þetta stóra samkomulag. Það hefur sýnt sig þegar minniháttar lekar verða. Fjölmiðlar (eða raunar fólk almennt) virða ekki þau lögmál sem giltu þegar upplýsingarnar urðu til. Lekinn býr til nýtt samkomulag. Ef það er hægt að skoða eitthvað þá verður það skoðað.Að skammast sín fyrir hræðsluna En vegna þess að erfitt er að koma auga á aðila sem myndi hagnast á allsherjar gagnaleka þá verður að segjast að hann er ekkert sérlega líklegur. Það fylgja því samt ónotaleg þyngsli að alast upp við ógnina. Ég held að sú ógn muni móta nýja kynslóð meira en flest annað. Það skiptir engu máli þótt fólk sé ekki meðvitað um smáatriðin. Þó að fólk skilji ekki tæknina eða hagsmunina. Sagan hefur sýnt að möguleikinn er til staðar. Auk þess lýtur ógn ekki alltaf lögmálum rökfræðinnar. Hún lúrir bara þarna. Sumir reyna að streitast á móti. Sumir byggðu sér kjarnorkubyrgi í kalda stríðinu og fylltu það af niðursuðudósum. Sumir munu breyta hegðun sinni í dag til að búa sig undir gagnalekann en það skiptir máli hvernig það er gert. Stærsti munurinn á þessari ógn og ógn kalda stríðsins er að við skömmumst okkar fyrir að hræðast gagnaleka. Við hjúfrum okkur ekki saman eins og undan kjarnorkusprengjunni heldur reynum við að halda stolti. Viðkvæðið er að enginn eigi að hafa neitt að fela. Með því erum við að dæma okkur sek en sökin er ekki meiri en sú að við erum bara að gera það sem fólk hefur alltaf gert. Þetta er eitthvað sem ný kynslóð mun komast yfir en sú sem ég tilheyri mun halda áfram að eiga í vandræðum með. Fyrsta skrefið til að mæta ógninni er að skilja þá hagsmuni sem gætu legið að baki gagnalekum en það er efni í aðra skoðun sem ekki er rúm fyrir hér.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun