Erlent

Árásirnar í París: Fjölga lögreglumönnum gífurlega

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjöldi hermanna er nú á götum úti í Frakklandi.
Fjöldi hermanna er nú á götum úti í Frakklandi. Vísir/EPA
Yfirvöld í Frakklandi hafa virkjað 115 þúsund lögreglumenn og hermenn eftir árásirnar í París á föstudaginn. Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakklands, hefur farið fram á að Evrópusambandsríki komi Frakklandi til aðstoðar. Þá voru frekari loftárásir gerðar í Sýrlandi í nótt og auk þas var húsleit gerð á 128 híbýlum grunaðra íslamista.

Í gær var gerð húsleit á rúmlega 160 stöðum þar sem 23 voru handteknir og hald var lagt á fjölmörg vopn og þar á meðal eldflaug og sjálfvirka árásarriffla.

Sjá einnig: Árásirnar í París: Hollande segir ISIS vera heigla

Gífurlega umfangsmikil leit stendur nú yfir í Frakklandi og í Belgíu að Belganum Salah Abdeslam, sem grunaður er um aðild að árásunum. Talið er að hann hafi flúið til Belgíu eftir að hafa komist í gegnum vegatálma í Frakklandi, en Belgar hafa hækkað viðbúnaðarstig sitt vegna leitarinnar.

Samkvæmt frétt BBC hefur verið hætt við leik Belga við Spán í knattspyrnu í dag.

Le Drian birti tíst fyrr í morgun, þar sem hann sagðist hafa beitt reglu 42,7 úr Lissabonsáttmálanum á fundi í Brussel. Sú regla felur í sér að sé ráðist á eitt ríki ESB eigi hin ríkin að koma til aðstoðar. Samkvæmt frétt Guardian eru Frakkar að fara fram á frekari þátttöku í baráttunni gegn ISIS í Írak og Sýrlandi.

Frakkar hafa ekki beitt grein fimm í stofnsáttmála NATO sem felur í sér sambærilega aðstoða frá aðildarríkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×