Erlent

Vilja ekki flóttamenn til Bandaríkjanna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Bandaríkin hafa lofað að taka á móti tíu þúsund flóttamönnum á næstu tólf mánuðum.
Bandaríkin hafa lofað að taka á móti tíu þúsund flóttamönnum á næstu tólf mánuðum. vísir/epa
Ríkisstjórar yfir tuttugu ríkja Bandaríkjanna segja að endurskoða þurfi áætlanir um móttöku flóttafólks frá Sýrlandi vegna árásanna í París. Þeir hafa farið fram á að komu þeirra verði frestað af öryggisástæðum, en til stendur að Bandaríkin taki á móti tíu þúsund flóttamönnum á næstu tólf mánuðum.

Barack Obama Bandaríkjaforseti kallaði eftir því í ræðu sinni á G20-leiðtogafundinum í Tyrklandi í dag að fleiri ríki komi Sýrlendingum til aðstoðar og sagði mikilvægt að árásirnar kæmu ekki niður á flóttafólki.

Þrátt fyrir það lýsa ríkisstjórarnir yfir efasemdum og segjast óttast það versta. Þau ríki sem þegar hafa óskað eftir því að móttöku flóttamanna verði frestað eru; Alabama, Arizona, Arkansas, Florida, Georgia, Idaho, Illinois, Indiana, Kansas, Louisiana, Mississippi, Maine, Massachusetts, Nebraska, New Hampshire, North Carolina, Ohio, Oklahoma, Tennessee, Texas og Wisconsin.

Bobby Jindal ríkisstjóri Louisiana sagði á Twitter í kvöld að hann ætli að reyna að gera allt hvað hann geti til að koma í veg fyrir að flóttafólk fái að koma til Loisiana.

Sérfræðingar í innflytjendalögum segja kröfur ríkisstjóranna þó ekki standast lög. Hins vegar komist þeir á bak við lögin með því að draga úr fjármagni til málaflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×