Einnig hefur verið lokið við að bera kennsl á þrjá af árásarmönnunum sem frömdu hermdarverkin í París síðastliðið föstudagskvöld. Þetta er meðal þess sem kemur fram á The Guardian.

Bróðir Salah, Ibrahim Abdeslam, var einn þeirra sem sprengdi sig í loft upp á föstudaginn í árásinni á Bataclan tónleikahúsið. Þriðji bróðirinn var einn af hinum sjö sem handteknir voru í Brussel grunaðir um aðild að árásinni. Nafn hans hefur enn ekki verið gefið upp.
„Eiginkona hans vann ekki og þau áttu mjög unga dóttur en það var ekkert óeðlilegt við þau,“ segir fyrrverandi nágranni um Osmar Ismail Mostefai en hann sprengdi sig einnig í Bataclan. Hann var franskur en af alsírskum ættum. Hann var 29 ára gamall. Áður hafði verið sagt frá því að árásarmennirnir hefðu verið á aldrinum fimmtán til átján ára en það reyndist ekki rétt.
Þriðji árásarmaðurinn sem búið er að bera kennsl á hét Bilal Hadfi og var tvítugur Belgi. Hann hafði áður ferðast til Sýrlands til að berjast með Íslamska ríkinu.
Franskar herþotur hafa í dag flogið til Sýrlands til að varpa sprengjum á bækistöð ISIS þar í landi en minnst tuttugu sprengjur hafa verið látnar falla á borgina Raqqa.