Erlent

Fyrsti árásarmaðurinn í París nafngreindur

Atli Ísleifsson skrifar
Þriggja daga þjóðarsorg er nú hafin í Frakklandi og verður sérstök minningarstund fyrir fjölskyldur hinna látnu haldin í Notre Dame í París síðar í dag.
Þriggja daga þjóðarsorg er nú hafin í Frakklandi og verður sérstök minningarstund fyrir fjölskyldur hinna látnu haldin í Notre Dame í París síðar í dag. Vísir/EPA
Franskir fjölmiðlar greina frá því að sex fjölskyldumeðlimir hins 29 ára Omar Ismail Mostefai hafi nú verið handteknir. Mostefai var Frakki af alsírskum uppruna, alinn upp í  Courcouronnes, úthverfi suður af París, og hafði áður komist í kast við lögin þó að hann hafi aldrei setið í fangelsi.

Fréttaritari BBC greinir frá því að Mostefai hafi orðið róttækur í skoðunum sínum eftir að hafa komist í kynni við belgískan imam.

Í gær var greint frá því að faðir og bróðir eins árásarmannanna hafi verið handteknir og húsleit gerð á heimilum þeirra í bæjunum Romilly-sur-Seine, um 130 kílómetrum austur af París, og Bondoufle þar skammt frá.

„Þetta er klikkað, galið. Ég var sjálfur í París í gærkvöldi og sá ringulreiðina sem skapaðist,“ sagði bróður Mostefai við AFP áður en hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu í gærdag.

Franskur saksóknari sagði að árásir föstudagsins hafi verið gerðar af þremur hópum árásarmanna og að 129 manns hið minnsta hafi farist og um 350 særst, þar af margir lífshættulega.

Þriggja daga þjóðarsorg er nú hafin í Frakklandi og verður sérstök minningarstund fyrir fjölskyldur hinna látnu haldin í Notre Dame í París síðar í dag.

Manuel Valls forsætisráðherra segir að Frakklandsher muni halda áfram árásum sínum á skotmörk ISIS í Sýrlandi og lýsti óvininum sem „mjög vel skipulögðum“.

Francois Hollande Frakklandsforseti hefur afboðað komu sína á fund G20-ríkjanna í Tyrklandi og mun þess í stað ræða ástandið í Frakklandi við fjölda pólitískra leiðtoga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×