Í lok október voru nýskráningar bifreiða á árinu orðnar 13.508. Þetta er vel yfir spá Bílabúðar Benna í byrjun árs um að hátt í 12.000 nýir fólksbílar myndu seljast á árinu. Þetta er einnig mikil aukning frá því í fyrra en þá seldust 10.611 bílar allt árið.
Viðsnúningur varð hjá flestum bílasölum landsins árið 2014 meðal annars hjá Brimborg, Heklu, BL, Öskju, og Toyota og skiluðu þær bílasölur sem Markaðurinn skoðaði allar hagnaði á árinu. Mestur hagnaður varð hjá Toyota, en hann nam 510 milljónum króna. Mesta velta var hins vegar hjá BL en hún nam 13,7 milljörðum króna. Minnsta veltan var hjá Suzuki, en rekstrartekjur samstæðunnar námu 1,9 milljarði króna á árinu, hagnaður félagsins nam hins vegar 187,5 milljónum króna. Minnstur hagnaður var hjá Heklu en hann nam 3,9 milljónum króna.
Hagnaður sem hlutfall af veltu var hæstur hjá Suzuki-samstæðunni, eða tólf prósent, en lægstur hjá Heklu, eða 0,04 prósent. Á árinu störfuðu flestir hjá Brimborg, en þar voru 170 stöðugildi en fæstir hjá Suzuki, þar sem voru 22 stöðugildi. Margar bílasölur bættu við sig starfsmönnum á árinu og má þar nefna Öskju og Suzuki.
Ef bílasala helst svipuð það sem eftir er árs og á haustmánuðum má áætla að rúmlega 15 þúsund nýskráningar muni eiga sér stað á árinu. Það myndi jafngilda nærri tvöföldun í bílasölu á tveimur árum, en árið 2013 seldust aðeins 7.913 nýir bílar.
Króatía
Ísland