Sport

Ronda er kvenkyns tortímandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Næsta helgi verður söguleg hjá UFC. Þá munu 70 þúsund manns troðfylla Etihad-völlinn í Sydney í Ástralíu en aldrei munu fleiri hafa mætt á stakan viðburð í sögu UFC.

Það sem gerir þetta enn magnaðra er að allar stjörnur kvöldsins eru konur. Það eru tveir titilbardagar í boði og báðir eru kvennabardagar.

Aðalbardaginn er á milli Rondu Rousey og Holly Holm en það er titilbardagi í bantamvigt. Holm er nítjánfaldur heimsmeistari í hnefaleikum og ætlar sér að láta Rondu hafa fyrir hlutunum. Holm hefur ekki enn tapað í búrinu rétt eins og Ronda. Holm hefur reyndar aldrei mætt neinni eins og Rondu Rosey.

Slíkir eru yfirburðir Rousey að hún er að klára sína bardaga að meðaltali á rúmum 30 sekúndum.

Joanna Jedrzejczyk
Hinn titilbardagi kvöldsins er í strávigt og á milli meistarans Joanna Jedrzejczyk og Valerie Letourne. Pólski meistarinn mun líklegri þar rétt eins og Ronda. Hún á enn eftir að tapa bardaga.

Eins og fyrir öll risakvöld í UFC eru gerðir þættir í aðdraganda bardagakvöldsins. Í fyrsta þætti af Embedded fyrir UFC 193 eru stjörnurnar að mæra Rousey.

„Hún er kvenkyns tortímandi," segir Arnold Schwarzenegger og Sylvester Stallone segir að Ronda sé eitthvað sem heimurinn hafi ekki séð áður.

Mark Wahlberg og Mike Tyson eru líka á meðal þeirra sem tala fallega um þessa ótrúlegu íþróttakonu í þættinum en hann má sjá hér að ofan.

Bardagakvöldið verður að sjálfsögðu í beinni á Stöð 2 Sport aðfararnótt sunnudags. Hægt er að tryggja sér áskrift á 365.is.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×