Menning

Óska eftir gestum sem þau gera grín að

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Saga og Dóri hafa slegið í gegn.
Saga og Dóri hafa slegið í gegn. Mynd/Auðunn Níelsson
Ef við ætlum að gera grín að öllum öðrum, verðum við líka að geta gert grín að okkur sjálfum,“ segir Saga Garðarsdóttir, sem fer með annað aðalhutverkið í sýningunni Þetta er grín, án djóks. Saga og Halldór Halldórsson, einnig þekktur sem Dóri DNA, gera þar grín að fjölmörgum þjóðþekktum einstaklingum og hópum. „En ætli við séum ekki verst hvort við annað,“ segir Saga og hlær.

Óskalisti yfir gesti

Á laugardaginn koma þau Saga og Dóri fram í Eldborgarsalnum í Hörpu, en verkið er sviðsetning Leikfélags Akureyrar og hefur verið sýnt þar í Hofi. Að því tilefni hafa þau sett saman óskalista yfir gesti sem þau vilja fá á sýninguna. Fólk sem þau Saga og Dóra gera grín að. Meðal þeirra sem eru á listanum eru Logi Bergmann, Katrín Jakobsdóttir, Laddi, Freyja Haraldsdóttir, Kári Stefánsson, Hanna Birna, Helgi Hrafn og „aðrir kynþokkafullir píratar," að þeirra sögn.

Viðurkenning í gríninu

„Fólk verður að gera sér grein fyrir því að það felst líka kraftur í því að láta gera grín að sér. Í því felst oft viðurkenning að aðrir telja þig þola grínið. Það er ekki verið að koma fram við þig eins og aumingja. Ég er á þeirri skoðun að það megi gera grín að öllu, svo lengi sem þú getur tekið afleiðingum grínsins. Ef þú vilt vera fávitinn sem segir smekklausan brandara á kostnað einhvers sem ekki getur varið sig, þá er það bara þitt mál. Þá verður þú líka að geta tekið afleiðingunum; dómi samfélagsins. Það er alveg nóg til af fólki sem vill dæma aðra, allt morandi í dómurum,“ útskýrir Saga. „Grín getur verið valdeflandi, það getur verið hjálparhönd, það getur líka verið þung sleggja og bara þakklátt bull. Allt eftir aðstæðum.”

Hefur áhyggjur af Dóra

Saga segir það vera geggjað að fá að sýna í Eldborgarsalnum, en sýningin á laugardaginn er eina fyrirhugaða sýningin þar. „Menn voru að velta því fyrir sér hvort þetta væri fyrsta leiksýningin í Eldborg, en ég minnti á að ég setti þar upp Þrymskviðu á esperanto, á Esperantoráðstefnu sem haldin var í Hörpu. Vissulega var það svolítið óaðgengilegri sýning.“

Saga segist þó hafa nokkrar áhyggjur af því að fara úr Hofi á stærra svið í Hörpu. „Ég hef miklar áhyggjur af því að ekkert muni heyrast í Dóra. Hann er náttúrulega ekki menntaður leikari. Mig grunar svolítið að línurnar hans muni fara fyrir ofan garð og neðan.“

Fjölskyldusýning

Makar þeirra Sögu og Dóra koma að sýningunni, en Snorri Helgason, kærasti Sögu, sér um tónlistina og Magnea Guðmundsdóttir, eiginkona Dóra, sér um leikmynd og búninga. „Ég get eiginlega ekki lýst þessu öðruvísi en að það sé svolítill „Brady Bunch“ fílingur í þessu. Svo fengum við líka draumaleikstjórann Jón Pál Eyjólfsson með okkur. Hann er sko skilgreiningin á erfiðum húmor,“ segir Saga og hlær.

Sýningin hefur fengið frábæra dóma og hefur verið vel sótt fyrir norðan. „Það hefur verið uppselt á flestar sýningar, annars bara verið örfá sæti laus. Maður hefur heyrt af mörgum sem hafa gert sér ferð norður, sem okkur þykir vænt um. Einhverjir hafa líka gengið út. Það er líka gaman. Þetta er sýning um mörk og ef einhverjum finnst yfir þau farið þá er sjálfsagt að ganga út. Það er alltaf gott að þekkja sín mörk. En þetta er verk um fólk sem gerir það ekki.“ bætir Saga við.

Hvort er meiri frekja?

Saga segir samstarfið við Dóra hafa verið ótrúlega ánægjulegt. „Dóri fær mann til að hlæja frá hjartanu. Hann er náttúrulega alveg ótrúlega fyndinn. Og klár og einn besti vinur minn“ Hún segir að einhverjir hafi velt því fyrir sér hvort þeirra sé frekara. Hún segir þau bæði vilja fá sínu framgengt, en að þau hafi mjög ólíkar aðferðir til þess. „Hann kynnir hugmyndir sínar alltaf eins og þær séu algjör snilld. Hann setur fólk í stellingar áður en hann kynnir þær og þvingar þær svo eiginlega líkamlega í gegn. Ég er meira í því að byrja rólega en halda mínu svo bara til streitu þangað til fólk gefst upp, ég sigra á sálfræðihernaði. Þetta hefur því verið afar fjölbreytilega frekt samstarf,“ segir Saga og hlær.

Saga og Dóri segjast mest gera grín að hvort öðru.
Hér má sjá listann sem Dóri og Saga bjuggu til, óskalistann yfir gesti:

Brynjar Níelsson

Logi Bergmann

Laddi

Helga Braga

Megas

Hanna Birna

Össur Skarphéðinsson

Bjarni Ben

Katrin Jakobs

Elín Hirst

Svandís Svavarsdóttir

Freyja Haraldsdóttir.

Fólk með þroskahamlanir

Einar Bárðarson

Múslimar á Íslandi

Anders Breivik

Ari Eldjárn

Bubbi Morthens

Geir Ólafs

Leoncey

Hildur Lillendahl

Gillzenegger.

Sjálfstæðiskonur.

Helgi Hrafn og aðrir þokkafullir Píratar

Kári Stefánsson

Jón Jónsson

Lækna-Tómas

Góða fólkið

Virkir í athugasemdum

Fólk sem notar hugtakið góða fólkið






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.